Ef við verndum jarðveginn og nýtum hann á sjálfbæran hátt getum við dregið úr loftslagsbreytingum, s…
Ef við verndum jarðveginn og nýtum hann á sjálfbæran hátt getum við dregið úr loftslagsbreytingum, segir meðal annars í þessu fróðlega myndbandi FAO.

Myndband FAO um jarðveg með íslensku tali og texta

Landgræðsla ríkisins og Skógræktin hafa tekið höndum saman og íslenskað stutt myndband sem FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, lét gera í tilefni af alþjóðlegu ári jarðvegs 2015. Í myndbandinu er útskýrt á skýran og skilmerkilegan hátt hversu mikilvægt er fyrir jarðarbúa að standa vörð um jarðvegsauðlindina.

Ekki átta allir sig á því hversu mikill koltvísýringur losnar út í andrúmsloftið úr jarðvegi vegna ýmissa athafna okkar mannanna. Með eyðingu skógar og annars gróðurs er hætta á að roföflin taki völdin og jarðvegurinn taki að eyðast hraðar en við verður ráðið. Ísland er talandi dæmi um áhrif vatns- og vindrofs eftir að gróðurhula veikist og rofnar.

Mikill koltvísýringur hefur losnað út í andrúmsloftið úr jarðvegi landsins frá því að menn settust hér að fyrir rúmum 1100 árum. En sú þróun hefur ekki tekið enda. Enn er mikið lífrænt efni að rotna í auðnum landsins sem og þegar það rotnar losnar koltvísýringur út í andrúmsloftið. Sömuleiðis losnar mikið af gróðurhúsalofttegundum frá framræstu landi.

Ef landið er klætt gróðri á ný stöðvast losunin og binding hefst í staðinn. Stífla má skurði og stöðva loftháða rotnun úr framræstu landi ellegar rækta á því skóg ef ekki hentar að stífla. Ýmsar aðgerðir eru tiltækar fyrir Íslendinga til að draga úr losun vegna landeyðingar og landnýtingar. Vert er að grípa til sem flestra aðgerða.

Tilgangur og skylda Skógræktarinnar er að tala fyrir því að land sé klætt kjarri eða skógi. Skógræktin mælir þess vegna með því að lokamarkmið landbóta sé að rækta skóglendi. Skógi eða kjarri vaxið land þolir umtalsvert öskufall og þar er mun minni hætta er á jarðvegseyðingu í kjölfar öskugosa en á skóglausu landi.

Texti: Pétur Halldórsson