Í byrjun mánaðarins tók einn af starfsmönnum Íslenskrar skógarúttektar, Bjarki Þór Kjartansson, þátt í skógmælingum með starfsbræðrum sínum í Svíþjóð. Mælingarnar fóru fram í suðurhluta Halland léns undir stjórn Björns Sjöberg sem er verkstjóri eins þeirra 15 mælingarhópa sem starfa við skógmælingar sem þessar í Svíþjóð. Skógarúttekt þeirra Svía er rótgróinn hluti af náttúrufarsrannsóknum þar í landi, enda hafa þeir stundað þær á landsvísu síðan árið 1923. Megintilgangur úttektarinnar er að fylgjast með skógum á breiðum grundvelli sem og safna ýmsum upplýsingum um náttúrufar skóganna. Niðurstöður úr slíkum skógarúttektum nýtast mjög vel við rannsóknir á langtíma breytingum í vistkerfum skóganna. Svíar gefa árlega út skýrslur um ólíka þætti er varða stöðu skógarauðlindarinnar sem eru leiðbeinandi fyrir almenning og stjórnvöld um nýtingu og verndun skóganna. Þess má geta að á hverju ári bíður almenningur spenntur eftir berjauppskeruspá skógarúttektarinnar.

Heimsóknir sem þessar eru mjög áhugaverðar en bæði skapast sterkt tengslanet og þekkingargrunnur fyrir bættum vinnubrögðum við Íslenska skógarúttekt. 

frett_09092011_2



Texti og myndir: Bjarki Þór Kjartansson