Loftur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógráðs ehf og Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, eru stjórnarmeðlimir í nýstofnuðu COST-verkefni á vegum Evrópusambandsins. Góður árangur þeirra við uppbyggingu kyndistöðvarinnar á Hallormsstað og útvegunarkeðju hráefnis úr skógi til orkunýtingar eru helstu hvatar þess að Íslandi er boðin þátttaka í þessu verkefni.

Megin markmið verkefnisins er að samræma hugtök og rannsóknaraðferðir er varða líforku úr skógi. Með því verður lagður fræðilegur grunnur að rannsóknum sem tengjast hráefnisöflun lífmassa til orkuframleiðslu, þekkingaryfirfærslu á lífmassa-útvegunarkeðju og sjálfbærri skógrækt. Umræða um mikilvægt hlutverk skóga og viðar til orkuöflunar verður sífellt háværari, einkum í ljósi aukinnar vitundar um  gróðurhúsaáhrifin. Lífmassi úr skógi er stærsti endurnýjanlegi orkugjafinn sem völ er á í Evrópu.

Stöðug og sjálfbær nýting krefst frekari þróunar í tækni og aðferðum.  Með því að samræma rannsóknaraðferðir er vonast til þess að niðurstöður fái aukið vægi. Verkefnið gerir mismunandi rannsóknir samanburðahæfar og auðveldar mönnum að draga almennar ályktanir út frá þeim. Verkefnið er þverfaglegt og skapar samevrópskan skilning á mikilvægustu skilgreiningunum og rannsóknaraðferðum. Það leiðir til betri nýtingar á endurnýjanlegum orkugjafa eins og Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til að gera. Þátttakendurnir (og þeirra tengslanet í hverju landi fyrir sig), munu einbeita sér að því að finna árangursríkustu rannsóknaraðferðirnar og samræma þær. Verkefnið stuðlar að betri þekkingargrunni fyrir ákvarðanatöku í orku- og umhverfismálum í Evrópusambandinu, sem og í einstökum ríkjum. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins.


Mynd og texti: Vefsíða Skógaorku