Sænska Yle fjallar um skógrækt og aðra ræktun á Íslandi við hlýnandi loftslag

Íslensku skógarnir vaxa svo vel að það brakar í þeim. Í Reykjavík, þar sem varla sáust tré fyrir fáeinum áratugum, eru nú tré út um allt. Nytjategundir í íslenskum skóg­um vaxa 10-20 sinnum betur en íslenska birkið. Þetta er meðal þess sem finnska blaðakonan Lotte Krank-van de Burgt fékk að kynnast á ferð með Aðalsteini Sigur­geirs­syni, fagmálastjóra Skógræktar­innar, um íslenska skóga. Fjallað er um Ísland í grein á vef finnska ríkisfjölmiðilsins Yle og umfjöllun birtist einnig í sjónvarpsfréttatíma fjölmiðilsins sem rekur bæði útvarps- og sjónvarps­stöðvar auk vefmiðla.

Farið er yfir hörmungarsögu gróðurlendis á Íslandi frá landnámi, hvernig birkiskóglendi sem þakti allt að 40 prósentum landsins hvarf og hvernig beitin og roföflin sáu til þess að svo fór sem fór með gróður landsins. Á síðari árum hafi þó farið að sjást árangur af skógrækt í land­inu. Skógarnir séu litlir á finnskan mælikvarða en stórir á þann íslenska. Trén vaxi nú helmingi hraðar en á sjöunda áratugnum og um 1990 hafi gróðursetning aukist í landinu fyrir alvöru.

Farið er yfir innfluttar tegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi og haft eftir Aðalsteini að sumar þeirra vaxi 10-20 sinnum hraðar en íslenska birkið. Hér séu líka farin að vaxa ávaxtatré. Berjarunnar eins og hindber beri ávöxt í skóginum, Íslendingar hafi komist upp á lagið með að tína sveppi og hér finnist flestir algengustu sveppir sem nýttir eru í Skandinavíu.


Aðalsteinn bendir hina augljósu kosti skóganna fyrir Ísland. Þeir stöðvi roföflin, séu vörn fyrir regni og vindum og bindi mikinn koltvísýring. Ranglega er reyndar haft eftir honum að skógar Íslands bindi 88-89 prósent af koltvísýringslosun landsins en talan 8-9 prósent væri nær lagi. Hins vegar er rétt sem Aðalsteinn bendir á að ekki þyrfti að rækta skóg á nema fáeinum prósentum landsins til að gera mætti landið kolefnishlutlaust. Í framtíðinni hugsi menn sér líka að hér geti byggst upp blómstrandi timburiðnaður og nú þegar sé vaxandi spurn eftir innlendum viði.

Fram kemur jafnframt að Íslendingar séu ekki allir ginnkeyptir fyrir þessu „græna gulli“. Margir þeirra líti á Finnland sem víti til varnaðar, fullt af skógi og ekkert að sjá nema tré. Spurt sé hvort fólk vilji að Ísland verði eins og Finnland. Aðal­steinn telur að þetta eigi aðallega við um eldri Íslendinga sem ólust upp í skóglausu landi með óheft útsýni hvarvetna. Þetta sé spurning um hverju fólk sé vant.

Í grein finnsku blaðakonunnar er líka fjallað um ræktun nýrra nytjaplantna á Íslandi svo sem vetrarhveitis, repju og frumbyggjanjóla eða kínóa. Rætt er við Magnus Göransson, doktorsnema við Lbhí, og líka Ólaf Eggertsson, bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, sem segir að tilraunir sínar við framleiðslu matarolíu og lífdísils úr repju geri hann sjálfum sér til fróðleiks og afkomendum sínum til gagns.

Loks er rætt við Aðalstein Sigurgeirsson um meindýr og sjúkdóma á trjám á Íslandi sem fari fjölgandi með hlýnandi loftslagi. Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá fylgist vel með þessu og kanni meðal annars mögulega óvini skað­valdanna sem haldið gætu þeim niðri. Og doktorsneminn Magnus Göransson segir að unnið sér að því að kynbæta efnivið til skógræktar sem hafi mótstöðuafl gegn sveppasjúkdómum. Þar komi meðal annars að gagni efniviður frá Finnlandi og hinum norrænu löndunum sem hafi þurft að glíma lengur við þessa tilteknu sjúkdóma.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson