Í síðustu viku urðu merk tímamót í sögu íslenskrar skógræktar. Ísland gerðist í fyrsta sinn útflytjandi á barrtrjáfræi! Um er að ræða sölu á 500 g af fræi stafafuru (Pinus contorta var. contorta) til Falklandseyja, en þær eyjar liggja austan við syðsta odda Suður-Ameríku.  Ástæða sölunnar er sú að bresk stjórnvöld og sjóðir til góðgerðamála vilja stuðla að aukinni skógrækt á Falklandseyjum. Hafa þau mótað þá stefnu að bæta ásýnd eyjanna og skilyrði til búsetu með ræktun skjólbelta og skjólskóga. Stafafuran er ein þeirra tegunda sem best hefur reynst til skógræktar á eyjunum. Stafafura sem ættuð er frá Skagway í Suðaustur Alaska hefur hins vegar borið af öðrum kvæmum í falklenskum tilraunum. Veðráttan á þessum úthafseyjum á margt sameiginlegt með eyjum í Norður-Atlantshafi; hún er svöl og úrkomusöm og hitamunur sumars og vetur tiltölulega lítil, og því ekki skrýtið þótt sömu tegundir eigi við, þótt staðirnir liggi við sitt hvorn enda Atlantshafsins.

 

Alastair Marsh heitir skógarbóndi sem býr í Grunnuhöfn (Shallow Harbour) á vesturhluta Falklandseyja. Hann hafði mörg undanfarin ár reynt að verða sér út um stafafurufræ frá Skagway í Alaska. En þar sem fræfall hefur verið afar lítið í Skagway mörg undanfarin sneri hann sér til Trónds Leivssonar, skógræktarstjóra Færeyja. Tróndur benti honum á að leita hófanna hjá Íslendingum, þar sem hann vissi að Skagway-kvæmið væri meginuppistaðan í stafafuruskógrækt Íslendinga.  Kom hann Alastair þar með í samband við Skógrækt ríkisins.

 

Undanfarin ár hefur nokkuð borið á skorti á stafafurufræi hérlendis. En svo heppilega vildi til að sú var ekki raunin í ár. Nóg fræ með góðri spírun var að finna í ár í frægeymslum Skógræktar ríkisins, vegna þess að skógarverðirnir á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi höfðu s.l. haust efnt til umtalsverðrar fræsöfnunar á stafafuru. Spírun reyndist víðast hvar allgóð; nálægt 90% þar sem hún var best (á Tumastöðum í Fljótshlíð).

 

Það er því allt útlit fyrir að á næstu árum skapist nýr, íslenskur útflutningsmarkaður; trjáfræ fyrir veðurbarða eyjaklasa á framandi slóðum!

 

Nánari upplýsingar um Falklandseyjar:

 

Falkland Islands Tourist Board

 

The United Kingdom Falkland Islands Trust

 

Sitkalúsarplaga á Falklandseyjum