Vísindafólk eins og kálfar á vori í vettvangsvinnunni

Starfsmenn Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá líkjast helst kálfum að vori þegar þeir sleppa út og geta hafið vettvangsvinnu í hinum ýmsu rannsóknar-  og úttektarverkefnum.

Verkefnið Íslensk skógarúttekt (ÍSÚ) er eitt viðamesta verkefni Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá. Þar er haldið til haga og uppfærðar upplýsingar á landsvísu um skóglendi Íslands og spáð fyrir um þróun þess til framtíðar. Þessar upplýsingar eru margvíslegar en þar er helst að nefna upplýsingar um flatarmál, viðarmagn og viðarvöxt. Í seinni tíð hafa upplýsingar um kolefnisforða og kolefnisbindingu eða -losun en líka líffræðilegan fjölbreytileika skóglendanna orðið æ mikilvægari.

Til þess að mögulegt sé að veita þessar upplýsingar gerir ÍSÚ vettvangsúttektir á skógunum á landsvísu, kallaðar landsskógarúttektir. Mælifletir eru valdir tilviljunarkennt um allt land, þeir heimsóttir, trjágróður mældur og umhverfi lýst. Alls eru tæplega 1.000 mælifletir mældir  á 5 ára tímabili. Slíkar vettvangsúttektir fóru í fyrsta sinn fram sumarið 2005 og búið var að mæla alla mælifleti árið 2009. Árið 2010 hófst svo endurmæling á mæliflötum sem lýkur í ár. Þá verður búið að mæla tvisvar sinnum alla þá mælifleti sem voru lagðir út 2005-2009, auk þess sem nýir fletir hafa bæst við vegna nýrra skógræktarsvæða.

Edda S. Oddsdóttir að mæla í nágrenni Húsavíkur


Á hverjum mælifleti eru mæld öll tré innan ákveðins flatarmáls. Hvert tré fær sitt auðkenni og er mælt á 5 ára fresti. Verði breyting innan flatarins milli mælinga, t.d. vegna grisjunar eða aukinnar gróðursetningar, kemur það fram í mælingum. Á þennan hátt fæst vitneskja um raunvöxt skóga, bæði hvað varðar hæð/lífmassa og flatarmál. Að auki eru gerðar gróðurgreiningar og jarðvegssýni tekin til kolefnismælinga. Gögnin sem safnast eru m.a. notuð til að reikna út kolefnisbindingu íslenskra skóga.






Björn Traustason við mælingar á Austurlandi





Arnór Snorrason með kíkinn í sunnlenskum skógi


Texti: Edda S. Oddsdóttir og Arnór Snorrason

Myndir: Íslensk skógarúttekt