Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri hlýðir á fyrirlestur í Madríd.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri hlýðir á fyrirlestur í Madríd.

Samstarf um vernd og nýtingu erfðaauðlinda skóga

Brynjar Skúlason, sérfræðingur í trjá­kynbótum á rannsóknasviði Skógræktar­innar, verður aðalfulltrúi Íslands í samstarfi Evrópulanda um vernd og nýtingu erfða­auðlinda skóga, EUFORGEN. Þar með tekur Ísland á ný þátt í þessu samstarfi eftir nokkurra ára hlé.

Samstarfið nær til Evrópu allrar, ekki ein­ungis Evrópusambandslanda. Íslendind­ingar drógu sig út úr þessu samstarfi eftir efnahagshrunið 2008 þegar draga þurfti saman seglin á ýmsum sviðum.

Á fundi verkefnahóps EUFORGEN um fjölgunarefni í skógrækt sem haldinn var í Madríd 14.-18. nóvember undirritaði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri samning um þátttöku í samstarfinu til næstu fjögurra ára.

EUFORGEN stendur fyrir European Forest Genetic Resources Programme og einkunnarorðin eru að erfðafjölbreytni sé grunnur sveigjanleika eða viðnámsþróttar. Þetta er alþjóðlegur samstarfsvettvangur sem ætlað er að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda evrópskra skóga og leggja þannig sitt til sjálfbærrar skógræktar og skógarnytja. Samstarfinu var hleypt af stokkunum árið 1994 og nú taka 24 Evrópulönd þátt í því, Ísland þar á meðal.


Aðlögun að loftslagsbreytingum

Skógræktarstjóri segir að í EUFORGEN-samstarfinu skapist möguleikar á þátttöku Íslendinga í verkefnahópum sem fást við aðkallandi spurningar um ýmis erfðafræði­leg efni á sviði skógræktar, ekki síst um aðlögun trjáa að loftslagsbreytingum. Þar sé margt fyrir okkur að læra og reynslan sýni að við höfum einnig margt til málanna að leggja.  

Þröstur sat tvo vinnufundi í Madríd. Á þeim fyrri var fjallað um verkefnið GenTree þar sem markmiðið er að færa skógræktar­geiranum í Evrópu þekkingu, aðferðir og tillögur að verklagi til að bæta meðferð og notkun erfðaauðlinda skóga. Á hinum vinnufundinum hófst verkefnahópur EUFORGEN með fulltrúum 20 landa handa við að taka saman tillögur um hvernig betur megi taka tillit til erfðafræðilegra þátta við framleiðslu fjölgunarefnis. Þröstur nefnir sem dæmi að flokkun plantna í gróðrarstöð hafi mikil áhrif á erfða­upplegg þeirra plantna sem gróðursettar eru og vel megi vera að við séum að missa af mikilvægum þáttum aðlögunar með því t.d. að henda plöntum sem eru ýmist of litlar eða of stórar miðað við staðla.


Hlutverk Íslands gæti orðið að varðveita tegundir

Fram undan eru spennandi tímar. En hvers skyldi Brynjar Skúlason, fulltrúi Íslands í EUFORGEN, vænta af þessu samstarfi? Að­spurður svarar hann því til að með þessu sé tækifæri til aukinnar víðsýni fyrir Íslend­inga og spennandi verði að taka þátt í samstarfsverkefnum. Ekki sé gott að segja hvað Ísland geti lagt til samstarfsins öðrum fremur. Einangrun Íslands geti þó hugsan­lega komið að gagni ef varðveita þarf teg­undir, tímabundið eða til framtíðar, vegna einhvers konar ógnar sem að þeim steðjar. Hann bendir á að óvissa geti verið um fram­tíð trjátegunda sem berjast fyrir lífi sínu í hlýnandi loftslagi. Tegundir sem lifa ofar­lega í fjöllum geti t.d. ekki fært sig enda­laust ofar í fjöllin en gætu e.t.v. fengið griðastað hér. Eins sé með tegundir sem ekki hafa möguleika á að færa sig norðar. Brynjar telur að Íslendingar geti hugsanlega tekið að sér hlutverk við slíka varðveislu.

Brynjar Skúlason (lengst til hægri) sýnir erlendum gestum ágræddar fjallaþinsplöntur.
Brynjar stýrir kynbótum Skógræktarinnar á fjallaþin og verður nú fulltrúi Íslands
í EUFORGEN-samstarfinu. Mynd: Pétur Halldórsson.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir frá EUFORGEN-fundinum: E.Hermanowicz/EUFORGEN