Andstæður gróskumikils og hrjóstrugs lands. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Andstæður gróskumikils og hrjóstrugs lands. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Óbreyttur stuðningur er við skógrækt á Íslandi ef marka má könnun Maskínu sem gerð var í desember. 94,3% svarenda töldu skóga hafa almennt jákvæð áhrif fyrir landið, svipað hlutfall og í sambærilegum könnunum 2017 og 2004. Mikill meirihluti aðspurðra telur líka mikilvægt að binda kolefni í skógum. Þá finnst um 60 prósentum skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar.

Könnunin var netkönnun sem gerð var fyrir Skógræktina. Hún var hluti af Hraðvagni MMR dagana 13.-20. desember 2021. Fjöldi svarenda var 2.051 manns, Íslendingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

Spurt var þriggja spurninga um skóga og skógrækt. Tvær þeirra voru orðrétt samhljóða spurningum sem lagðar voru fyrir í Gallup-könnunum árin 2004 og 2017, annars vegar hvort fólk teldi skóga hafa almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið og hins vegar hversu mikilvægt eða lítilvægt fólk teldi að binda kolefni í skógum. Þriðja spurningin var tekin orðrétt úr spurningalistanum frá 2004 og hljóðaði svo: Finnst þér skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar?

Spurning 1: Telur þú að skógar hafi almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið?

Niðurstöðurnar eru í heild jákvæðar. Viðhorf gagnvart áhrifum skóga á landið eru almennt jákvæð sem sést á því að 59,9% svarenda telja áhrifin vera mjög jákvæð og 34,4% frekar jákvæð. Samtals telja því 94,3% svarenda að skógar hafi almennt jákvæð áhrif fyrir landið. Greina má blæbrigðamun á milli mjög og frekar jákvæðra. Hlutfall þeirra sem telja áhrifin mjög jákvæð er hæst í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára (65,6%). Svarendur á höfuðborgarsvæðinu voru líka nokkru jákvæðari en svarendur annars staðar á landinu, 63,1% mjög jákvæð á móti 54,0% annars staðar.

Í könnuninni sést líka nokkurt samband á milli jákvæðni gagnvart skógum og þess hvort fólki finnst mikilvægt að binda kolefni í skógum. Með öðrum orðum eru svarendur sem eru mjög jákvæðir gagnvart skógum líklegri til að telja kolefnisbindingu mjög mikilvæga.

Spurning 2: Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að binda kolefni í skógum?

Í svörum við þessari spurningu verður ekki greindur mikill munur milli bakgrunnshópa hjá þeim sem tóku afstöðu. Hlutfall þeirra sem telja kolefnisbindingu í skógum mikilvæga er almennt um 90% óháð hópum. Hins vegar er athyglisvert að sjá breytileika í hlutfalli þeirra sem taka ekki afstöðu, þar sem kyn, aldur og menntun virðist hafa nokkur áhrif. Í flokknum „bændur, sjó-, iðn-, véla- og verkafólk“ finnst 6,1% svarenda frekar eða mjög lítilvægt að binda kolefni í skógum en hjá flestum öðrum hópum er þetta hlutfall hverfandi, lægst hjá námsmönnum, 0,6%. Það rímar við fyrri kannanir þar sem ungt fólk hefur reynst einna jákvæðast fyrir skógum og skógrækt.

Spurning 3: Finnst þér skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar?

Þessarar spurningar var spurt í Gallup-könnun árið 2004. Þá fannst 32,1% svarenda ekki skipta máli hvaða trjátegundum væri plantað en þetta hlutfall hefur hækkað upp í 40,0% ef marka má nýju könnunina. Með öðrum orðum eru fleiri nú sem finnst ekki skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar. Að sama skapi eru færri nú sem finnst þetta skipta máli, 60,0% nú en var 67,9% í könnuninni 2004

Hér er vert að benda á hátt hlutfall þeirra sem svara „veit ekki“ við þriðju spurningunni. Það gefur til kynna ákveðið þekkingarleysi á málefninu, sér í lagi hjá yngri svarendum. Þá virðast elstu svarendur, háskólamenntaðir og fólk í stjórnunar -og sérfræðistörfum helst vera á þeirri skoðun að trjátegundirnar skipti máli – sem aftur gæti bent til að menntun eða reynsla hafi þar áhrif á skoðun á þessu málefni. Áfram þarf því að halda á þeirri braut sem Skógræktin hefur markað, að fræða þjóðina um skóga og skógrækt.

Texti: Pétur Halldórsson