(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Sérfræðingar á sviði umhverfismála sem starfa hjá háskólunum Yale og Columbia í Bandaríkjunum meta annað hvert ár frammistöðu landa í umhverfismálum. Matið (The Envrironmental Performance Index) nær yfir ýmis svið, s.s. áhrif umhverfis á heilsu, gæði lofts, vatnsstjórnun, líffræðilega fjölbreytni, fiskveiðar og skógrækt. Löndunum, sem eru 163 talsins, er raðað upp eftir því hversu vel þau standa sig á þessum sviðum.

Listi ársins 2010 er nú kominn út og vermir Ísland efsta sætið með 93,5 stig 100 mögulegum. Þau lönd sem fylgja á eftir Íslandi eru Sviss, Costa Rica, Svíþjóð og Noregur. Segir í fréttatilkynningu að landið sé leiðandi í að draga úr megun og stjórna náttúruauðlindum. Ástæða þess að Ísland komi svona vel út úr matinu sé góður árangur í lýð- og umhverfisheilsu, takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda og skógrækt.

Jón Lofsson, skógræktarstjóri, segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. „Ástæða þess að Ísland skorar svona hátt í umhverfisvænleika held ég að sé ekki síst fyrir frammistöðu okkar í skógræktarmálum. Þrátt fyrir að Ísland sé það land í Evrópu sem hefur minnstu skógarþekjuna höfum við á síðastliðnum 15 árum aukið skógarþekju landsins hlutsfallslega mest allra Evrópuþjóða. Skógar hafa því vaxið um 95% að flatamáli á þessu tímabili og það er ríflega 6% aukning á ári."

Jón bendir jafnfram á að möguleikarnir hér á landi séu miklir. „Gífurleg skógareyðing á umliðnum öldum gerir það að verkum að möguleikar Íslands til kolefnisbindingar á skóglausu landi eru langt umfram það sem stærri skógarlönd hafa. Í hugum flestra er aukin skógarþekja jákvætt umhverfismál, gefur skjól, eykur lífrræðilega fjölbreytni, miðlar vatni, bindur kolefni og býr til nýja og verðmæta auðlind."

Nánari upplýsingar um matið má finna á vefsíðu Yale háskólans.




Texti og mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins.