Sjálfboðaliðar gróðursetja birki í Þjórsárdal. Ísland gæti látið til sín taka á
alþjóðavettvangi og…
Sjálfboðaliðar gróðursetja birki í Þjórsárdal. Ísland gæti látið til sín taka á
alþjóðavettvangi og talað fyrir endurheimt landgæða og útbreiðslu skóglendis til þess að binda kolefni. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Rætt við Halldór Þorgeirsson hjá Loftslagssamningi SÞ um loftslagsþingið í Bonn

Nýafstaðið loftslagsþing í Bonn tókst vel að mati Halldórs Þorgeirssonar, forstöðumanns á skrifstofu Loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Halldór segir að Ísland geti gegnt mikilvægu hlutverki, ekki síst á sviði bættra landgæða en það geti þó haft áhrif á orðspor landsins ef ekki verði fljótlega ráðist fyrir alvöru í orkuskipti í samgöngum.

Skógræktin, Landbúnaðarháskólinn, Landgræðslan og Bændasamtök Íslands standa sameiginlega að ráðstefnu 5. desember um kolefnismál og landnýtingu. Að því tilefni tók Pétur Halldórsson eftirfarandi viðtal við Halldór Þorgeirsson sem birtist í Bændablaðinu 30. nóvember.

„Það er mikill skriðþungi að baki Parísarsáttmálanum,“ segir Halldór. Þrátt fyrir að bandaríska alríkisstjórnin vilji draga sig út úr samstarfinu hafi verið mikill kraftur í öðrum Bandaríkjamönnum, svo sem ríkisstjóra Kaliforníu, borgarstjórum bandarískra stórborga, leiðtogum úr bandarísku atvinnulífi og fulltrúum félagasamtaka. Það sé til marks um vægi þingsins í Bonn að þar komu yfir 20 þjóðarleiðtogar, m.a. Frakklandsforseti og kanslari Þýskalands.

Halldór segir að mikilvægur áfangi hafi náðst í Bonn við útfærslu samkomulagsins sem ljúka skal að ári. Margt sé þó óunnið enn og síðustu metrarnir í slíkri samningagerð gjarnan snúnastir. „Erfiðasta málið snýr að hlutverkaskiptingu milli ríkja, fyrst og fremst gagnvart því hversu mikill munur verður á kröfum sem gerðar verða til þróunarríkjanna samanborið við iðnríkin.“


Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður
á skrifstofu Loftlagssamnings Sameinuðu
þjóðanna.

Efnahagslífið mun draga vagninn

„Þungamiðjan í þessu mikilvæga verkefni hefur færst frá stjórnvöldum til atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Meðvitundin er orðin mjög mikil hjá fólki, ekki aðeins vegna samkomulagsins heldur hafa afleiðingar loftslagsbreytinga verið mjög áþreifanlegar síðustu misseri, ekki síst hjá þeim sem eru viðkvæmastir fyrir veðurfarsbreytingum. Þar nægir að nefna Karíbahafsríki, flóð sem orðið hafa í Afríku og mikla erfiðleika á Indlandi,“ segir Halldór.

„Á endanum verður það efnahagslífið sem dregur vagninn í aðgerðunum. Endurnýjanleg orka er nú í mörgum tilfellum orðin hagkvæmasti kosturinn og kostnaðurinn hefur hrunið,“ heldur Halldór áfram. Fram undan sé barátta um hversu hratt kolabrennsla skuli hverfa úr hagkerfinu. Það hafi t.d. sést á ágreiningi um kolabrennslu í stjórnarmyndunarviðræðunum í Þýskalandi. Megintíðindin frá þinginu séu sameiginleg öllum þjóðum. „Hér er mjög alvarlegt vandamál á ferðinni en það eru lausnir til og alþjóðasamfélagið er að ná samstöðu um að leysa þetta vandamál.“

Orkuskipti í samgöngum brýn

Í lágkolvetnishagkerfi framtíðarinnar segir Halldór að Ísland geti haft miklu að miðla um endurheimt landgæða, nýtingu jarðvarma og fleira. „En Ísland er samt enn nokkuð fast í jarðefnahagkerfinu þegar kemur að samgöngum,“ segir hann. Landið verði að ráðast í orkuskipti í samgöngum svo að mikil olíunotkun spilli ekki orðspori landsins í loftslagssamstarfinu. Styrka forystu stjórnvalda þurfi til svo markmiðin náist en einnig mikinn stuðning atvinnulífs og félagasamtaka. „Þeir útlendingar sem sækja Ísland heim vilja sjá land sem byggt er á endurnýjanlegri orku, ekki innfluttri olíu. En reynslan hefur sýnt að Íslendingar eru mjög útsjónarsamir þegar þeir takast á við hlutina.“

Landbætur og útrýming fátæktar

Eftir þingið í Bonn segir Halldór að fólk virðist almennt meðvitað um þau miklu áhrif sem hnignandi landgæði hafi á lífsgæði stórs hluta mannkyns. „Raunverulega er mikið af þeirri fátækt sem við þekkjum í dag mjög nátengt ástandi lands. Þar af leiðandi fer saman það mikilvæga starf að endurheimta landgæði og útrýma fátækt.“

Halldór segir að einhugur hafi verið um það á þinginu að byggja þurfi upp gróður- og jarðvegsauðlindina enda geti margar þjóðir ekki lengur framfleytt sér á landi sem framfleytti þeim áður. „Þess vegna er mikil áhersla á útrýmingu fátæktar og mjög margir sem sjá það tengjast landnotkun þótt ekki séu allir sem átta sig á þessum tengslum.“

Þarna telur Halldór að Ísland ætti að láta mjög til sín taka og tala fyrir endurheimt landgæða og útbreiðslu skóglendis. Að búa sig undir afleiðingar veðurfarsbreytinga haldist mjög í hendur við endurheimt landgæða. Uppbygging kolefnisforða í jarðvegi gefi aukna frjósemi og mun meiri möguleika á að mæta fæðuþörf mannkyns. Vænlegast sé að byggja upp landgæði í góðu samstarfi við fólk sem lifir á því sem landið gefur. „Með því er hægt að draga úr þeim afleiðingum sem veðurfarsbreytingar hafa. Bæði þurrkar og flóð eru hættulegri þar sem skógareyðing hefur átt sér stað.“

Hólasandur norðan Mývatnssveitar var gróið land fram á síðustu öld. Í aldarfjórðung hefur farið þar fram uppgræðslustarf og í sumar efndi starfsfólk Norðurlandsdeilda Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar til sameiginlegs gróðursetningardags. Settar voru niður hartnær tíu þúsund trjáplöntur. Víða um heim, til dæmis á Íslandi, eru manngerðar eyðimerkur sem vel má græða upp og klæða skógi á ný. Hér er unnið að gróðursetningu stafafuru í lausan sand á Hólasandi sem bundinn hafði verið með grassáningum. Fremst á myndinni eru þeir Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, og Daði Lange, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar. Mynd: Pétur Halldórsson

Aukin áhersla á bindingu eftir 2030

„Langtímamarkmið Parísarsamkomulagsins er að eigi síðar en um miðja þessa öld náist jafnvægi losunar og bindingar á jörðinni,“ segir Halldór. „Binding kolefnis er hluti af grundvallarmarkmiðum Parísarsamkomulagsins, sérstaklega langtímamarkmiðunum.“ Ísland hafi nú þegar haft mjög mikil áhrif á núgildandi reglur um bindingarbókhald, fengið landgræðslu viðurkennda sem hluta af aðgerðum innan Kyoto-bókunarinnar og verið í fararbroddi um að endurheimt votlendis yrði tekin með í spilið. „Ísland þarf áfram að vera í þessari forystusveit og það krefst þess að Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi.“

Ísland móti eigin markmið

Loks er Halldór Þorgeirsson spurður sameiginlegu markmiðin um 40% samdrátt losunar miðað við 1990 sem Íslendingar hafa gengist undir með Evrópusambandinu gegnum EES-samstarfið. Útlit er fyrir að binding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis verði aðeins að mjög litlum hluta viðurkennd í þessu evrópska bókhaldi fram til 2030.

Halldór tekur fram að þau hjá Loftslagssamningi SÞ séu ekki beinir aðilar að bókhaldi Evrópu og geti því ekki svarað fyrir það. Svo virðist sem Evrópusambandið hafi viljað þrýsta á orku- og iðnfyrirtæki að breyta um aðferðir, ráðast í orkuskipti, í stað þess að grípa til bindingar eingöngu. Þetta skýri væntanlega það lága hlutfall bindingar sem útlit er fyrir að viðurkennt verði í kolefnisbókhaldi Evrópu fram til 2030. „Þess má þó vænta að meiri áhersla verði lögð á aðgerðir í landgræðslu og skógrækt á næsta skuldbindingartímabili Parísarsamkomulagsins eftir 2030,“ segir Halldór.

Halldór minnir á að innra bókhald Evrópusambandsins sé auðvitað ekki megintilgangur landgræðslu og skógræktar á Íslandi. Margvíslegur annar ávinningur sé þar í spilinu. Vissulega sé miður að þessi staða skuli hafa komið upp gagnvart ESB. Ástæðulaust sé þó að slá af í landgræðslu og skógrækt vegna ákvæða um kolefnisbókhald Evrópuþjóða. Mikilvægt sé að Ísland móti eigin markmið og stefnu um kolefnisbindingu með bættum landgæðum og geri það á eigin forsendum.

„Svo er líka mikilvægt að undirstrika að allt er breytingum háð. Ísland getur með góðu samstarfi við þær þjóðir Evrópusambandsins sem vilja að meira tillit verði tekið til bindingar hugsanlega haft áhrif á umræðuna,“ segir Halldór Þorgeirsson í Bonn.


Viðtal: Pétur Halldórsson