Á Vínarfundinum undirrituðu fulltrúarnir ,,Vínarsamþykktina? auk fimm ályktana. Með Vínarsamþykktinni skuldbinda ráðherrar skógarmála í Evrópu sig til að stuðla að viðhaldi og eflingu á hinum fjölbreytta ágóða sem skógar veita samfélaginu í stefnumótun um verndun og nýtingu þeirra sem fram fer í hverju landi.  Samþykktin undirstrikar þá staðreynd að skógar gegna margslungnum hlutverkum og veita margskonar ágóða. 

 

Þeir eru uppspretta endurnýjanlegrar orku, veita vörn gegn náttúruspjöllum s.s. jarðvegsrofi, binda kolefni og draga þannig úr hnattrænum loftslagsbreytingum af mannavöldum, skapa ákjósanleg útivistarsvæði, miðla vatni og vernda vatnsgæði.  Auk þess er viður úr skóginum umhverfisvænt hráefni til fjölda nota.  Þessi víðfeðma gagnsemi skóga á að koma öllu samfélaginu til góðs og þess vegna þurfa allir viðeigandi hópar að bera sameiginlega ábyrgð á skógunum og nýtingu þeirra.  Vínarsamþykktin og ályktanirnar fimm eru enn eitt jákvætt skref í átt til sjálfbærrar nýtingar skóga.

 

Ráðherrafundir um verndun skóga í Evrópu eru hápunktar ferlis þar sem verið er að marka samræmda stefnu um verndun og nýtingu eins fjórða af skógum heims.  Fundirnir eru teknir mjög alvarlega í flestum löndum Evrópu og sendu sum ríki ráðherra og margra manna fylgdarlið úr skógræktargeiranum til Vínarborgar, ásamt sjónvarpsfólki og túlkum.  Þetta er fjórði ráðherrafundurinn sem haldinn er í þessum tilgangi, en þeir hafa áður verið haldnir í Strasbourg 1990, Helsinki 1993 og Lissabon 1998.  Næsti ráðherrafundur verður haldinn í Varsjá árið 2008. 

 

Landbúnaðarráðherra Íslands eða staðgengill hans hafa mætt á alla þessa ráðherrafundi og undirritað ályktanir þeirra fyrir Íslands hönd.  Íslendingar eru þannig virkir þátttakendur í þessu samstarfi Evrópuþjóða.  Verðug innlegg Íslands eru til dæmis nýleg samþykkt Alþingis um fyrstu landsáætlun Íslands í skógrækt, til næstu 5 ára og ályktun Alþingis frá því í vor, um auknar fjárveitingar til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna.  Þessi mál eru mjög í anda þess Evrópska samstarfs sem hér um ræðir.

 

 

Fimm ályktanir ráðherrafundarins í Vínarborg

 

1.  Ályktun um landsáætlanir í skógrækt. 

Þar kemur fram að aðeins verði komist að skynsamlegri lausn á þeim flóknu félagslegu, líffræðilegu og efnahagslegu spurningum sem þar eru til umfjöllunar með þátttöku allra hlutaðeigandi hópa.  Ráðherrarnir skilgreindu landsáætlanir í skógrækt sem viðeigandi tæki til að ná samstöðu um stefnu í verndun og nýtingu skóga.  Þess ber að geta að Alþingi Íslendinga samþykkti nýverið fyrstu landsáætlun Íslands í skógrækt, til næstu 5 ára.  Hún er ekki að öllu leiti eins og gert er ráð fyrir skv. 1. ályktun ráðherrafundarins en er góð byrjun og með henni eru Íslendingar komnir lengra en meirihluti Evrópuþjóða í þessum efnum.

 

2.  Ályktun um efnahagslega þætti sjálfbærrar skógræktar. 

Þar er tekið sérstaklega fram að til lengri tíma litið hefur hugtakið ,,sjálfbær skógrækt? litla þýðingu nema hagrænir þættir séu teknir með.  Þá er ítrekuð sú staðreynd, sem einnig kom fram á Lissabonfundinum 1998, að skógrækt sé snar þáttur í sjálfbærri byggðaþróun til sveita.  Í mörgum öðrum löndum þýðir þetta að vernda þurfi skóginn og nýta sem auðlind á sjálfbæran hátt, sérstaklega sem tekjulind í dreifbýli, svipað og Íslendingar þurfa að hugsa um fiskistofna sína.  Merking þessarar ályktunar fyrir Ísland er hins vegar sú að við þurfum að byggja upp skógarauðlind.  Ályktun Alþingis frá því í vor um að auka skuli fjárveitingar til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna er mjög í anda þessarar ályktunar.   

 

3.  Ályktun um félagslega og menningarlega þætti sjálfbærrar skógræktar. 

Ráðherrarnir samþykktu að taka tillit til menningarverðmæta samfara stefnumörkun í skógrækt, sérstaklega þar sem skógar hafa alla tíð verið nytjaðir á einn eða annan hátt og bera yfirleitt söguleg merki nýtingarinnar.  Hér er einkum átt við að viðhalda skuli þekkingu á gömlum venjum og hefðum við meðferð skóga og skógarnytjar, t.d. hjá frumbyggjum.  Á Íslandi þýðir þetta t.d. að viðhalda þekkingu á því hvernig menn rifu hrís, gerðu til kola, skáru út aska eða smíðuðu langspil.

 

4.  Ályktun um líffræðilega fjölbreytni í skógum

Um þennan þátt var einnig ályktað á fundunum í Lissabon og Helsinki.  Að þessu sinni var áhersla lögð á að verndun líffræðilegrar fjölbreytni skuli hámarka eins og kostur er innan verndaðra skóga.  Einnig að stækka skuli verndarsvæði og vernda ný svæði þar sem við á til að ná viðunandi verndunarstigi á mismunandi gerðum skóga.

 

5.    Ályktun um loftslagsbreytingar. 

Þar er áhersla lögð á mikilvægi skóga til bindingar og geymslu kolefnis, sem dregur úr loftslagsbreytingum af mannavöldum.  Engu að síður má þessi eiginleiki skóga ekki verða yfirsterkari en hinar fjölbreyttu nýtjar aðrar þegar stefna í verndun og nýtingu skóga er mörkuð.  M.ö.o. er mælst gegn því og það talið skref í öfuga átt að stunda skógrækt með kolefnisbindingu sem eina markmiðið.