Kökuritið sýnir hlutfall svara við spurningunni um hversu jákvætt eða neikvætt fólk væri gagnvart Sk…
Kökuritið sýnir hlutfall svara við spurningunni um hversu jákvætt eða neikvætt fólk væri gagnvart Skógræktinni

Þjóðin er jákvæð í garð Skógræktarinnar og yfirgnæfandi meirihluti þekkir til stofnunarinnar. Aðeins um 20% segjast þekkja illa til Skógræktarinnar en þekkingin er minnst í aldurshópnum 18-29 ára.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu á viðhorfi og þekkingu Íslendinga á 41 íslenskri ríkisstofnun. Þekking fólks á Skógræktinni er vel yfir meðallagi og lendir stofnunin í þrettánda sæti af 41 í þeirri mælingu. Þegar litið er til jákvæðni fólks gagnvart stofnunum er Skógræktin í fimmta sæti á eftir Landhelgisgæslunni, Veðurstofu Íslands, Embætti landlæknis og Þjóðminjasafni Íslands.

Vitund á Skógræktinni mælist 86,4% sem þýðir að þetta hlutfall telur sig hafa þekkingu á stofnuninni. Í þessum lið er hlutfall þeirra sem telja þekkingu sína á Skógræktinni vera í meðallagi nokkuð hátt, 42,9%, en 37,4% segjast þekkja stofnunina vel. Þessi hlutföll hafa verið á svipuðu róli í mælingum allt frá árinu 2016 en þó hefur þeim sem þekkja stofnunina vel heldur fjölgað. Almennt er litla sem enga breytingu að sjá á þeim mælikvörðum sem settir voru upp í könnuninni.

Lítil þekking hjá fjórðungi ungs fólks

Heldur fleiri karlar telja sig þó þekkja vel til Skógræktarinnar en konur, 40,8% á móti 34,1%. Sömuleiðis eru fleiri konur en karlar sem segjast þekkja illa til stofnunarinnar. Þegar litið er á aldur svarenda kemur í ljós að þekkingin er minnst í aldurshópnum 18-29 ára, tæpur fjórðungur eða 23,5%, en mest hjá þeim sem eru 60 ára og eldri, 49,7%.

Nokkuð vantar upp á þekkingu unga fólksins á Skógræktinni en almennt er þekking á stofnuninni góð

Lítill munur er á svörum eftir menntun en heldur fleiri háskólamenntaðir þekkja vel til Skógræktarinnar en aðrir. Af landshlutunum er þekkingin mest á Austurlandi þar sem aðalskrifstofa Skógræktarinnar er, 54,7%. Annars er hlutfallið á bilinu 31%-40%, lægst á Vesturlandi og Vestfjörðum, 31,1%.

Yfir 97% jákvæð

Jákvæðni gagnvart Skógræktinni mælist svipuð hjá kynjunum í könnuninni, yfir 97 prósent. Lítinn mun er að sjá á svörum eftir aldri eða búsetu nema hvað á Austurlandi og í Reykjavík virðast heldur fleiri neikvæðir en annars staðar, 5,9% og 3,4%. Á Norðurlandi reyndist hins vegar enginn neikvæður. Þessar tölur neikvæðra eru reyndar svo lágar að þær gefa takmarkaðar vísbendingar. Meginniðurstaðan er að innan við þrjú prósent svarenda mælast neikvæð.

Könnunin var lögð á netinu fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega. Spurt var um rúmlega 40 stofnanir dagana 28. janúar til 24. febrúar 2022 og voru svarendur 910 talsins.

Texti: Pétur Halldórsson