Nokkuð bar á asparryði á landinu í sumar, til dæmis á Akureyri. Þar var ryðið ekki síst áberandi á s…
Nokkuð bar á asparryði á landinu í sumar, til dæmis á Akureyri. Þar var ryðið ekki síst áberandi á svæðinu sem nær yfir Kjarnaskóg, Naustaborgir og á tjaldsvæðið á Hömrum. Hér sést ösp á Hömrum sem sker sig frá öðrum vegna ryðs og í kringum hana eru víðitegundir sem einnig eru þjakaðar af víðiryði. Viðja varð sérstaklega illa fyrir barðinu á víðiryði á Akureyri í sumar eins og víðar um land.. Myndin er tekin 8. ágúst. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Allnokkuð bar á ryðsvepp á trjágróðri víða um land í sumar og asparryð breiðist nú út í auknum mæli á Norður- og Austurlandi. Í sumar bárust fréttir víða að af landinu um mikið ryð á viðju. Áður var það aðallega bundið við hreggstaðavíði.

Á þessari mynd sem Halldór Sverrisson tók í Haukadal 21. september sést nokkur klónamunur á því hversu mikið asparryðið herjar á trén.

Sumarið var úrkomusamt um allt land, í svalara lagi sunnan- og vestanlands, í tæpu meðallagi á Norðurlandi en hlýjast og sólríkast á Austurlandi. Þegar á allt er litið var það nokkuð hagstætt ryðsveppum enda þurfa ryðsveppir á trjágróðri vætu til þess að dafna. Sumarið byrjaði snemma og verður að teljast nokkuð langt þótt kalt væri víða. Ekki hefur verið gerð skipuleg könnun á asparryði á þessu sumri en starfsfólk Skógræktarinnar hefur skráð og myndað nokkra staði þar sem mest bar á ryði.

Fyrst ber þar að nefna Kirkjubæjarklaustur og nágrenni. Í Prestbakkakoti voru margar aspir orðnar lauflausar um og eftir miðjan ágúst. Að vanda er ryð landlægt í uppsveitum Árnessýslu en hefur stundum verið verra. Í lok júní var ösp í Gunnfríðarstaðaskógi í Austur-Húnavatnssýslu alsett ryðblettum. Þetta kom á óvart vegna þess að asparryð hafði ekki fundist þar í níu ár og virtist útdautt. En annað blasti þar við í haust. Aspir voru meira og minna lauflausar eða með svörtum blöðum og jörð þakin sýktum blöðum með vetrargróum.

Áður hefur litið svo út sem asparryð hefði dáið út, t.d. á Fljótsdalshéraði. Þar hefur það nú skotið aftur upp kollinum og er töluvert meira en áður. Á Akureyri fannst ryð í fyrra og heldur meira í sumar. Töluvert bar til dæmis á því í Kjarnaskógi og Naustaborgum, ekki síst í grennd við tjaldsvæðið á Hömrum og á tjaldsvæðinu sjálfu. Einnig virðist ryð vera að ágerast í Borgarfirði. Allt ber þetta að sama brunni; ryð getur orðið vandamál í asparrækt í öllum landshlutum þegar tímar líða.

Hafa ber í huga að ryðsveppurinn hefur kynæxlun sem gefur honum aukna aðlögunarhæfni miðað við sveppi sem ekki hafa þann eiginleika. Það er því full ástæða til þess að flýta því eins og kostur er að koma fleiri klónum með ryðmótstöðu eða klónum með gott ryðþol í almenna notkun. Skógræktin leggur áherslu á það verkefni. Fjölgun valinna klóna er hafin á Tumastöðum og fleiri klónar eru á leiðinni. Eins og kunnugt er ætlar ríkisstjórnin að leggja áherslu á kolefnisbindingu með skógrækt. Þar getur öspin komið til skjalanna með öflugum hætti enda vex hún hratt og bindur mikið. Réttur efniviður skiptir því miklu máli.

Tveir klónar á Höfða 20. ágúst 2018. Hallormur er vinstra megin, lítið skemmdur af ryði, en á Pinna til hægri eru blöðin svört og krumpuð. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson.Eins og meðfylgjandi myndir frá Höfða á Völlum á Héraði sýna geisar asparryð þar svo um munar. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri hefur fylgst með ýmsum klónum aspar þar og sýnist að mismunandi næmi þeirra fyrir ryðsveppnum geti tengst ofnæmisviðbrögðum í trjánum. Margir asparklónar eru í garðinum á Höfða, sumir þekktir og nafngreindir en aðrir úr söfnun asparklóna í Alaska 1985, nafnlausir og ónúmeraðir. Einn þeirra er alverstur, að sögn Þrastar, en blöð hans sortna og krumpast. Hann er þó ekki með fleiri gróhirslur á neðra borði blaðanna en margir aðrir sem halda blaðlit og lögun.

Af þekktum klónum er Pinni einna verst haldinn af ryði í Höfða. Hann er hægra megin á uppréttu myndinni, en Hallormur vinstra megin er mun skárri þótt hann sé líka svolítið ryðgaður. Súsí er mikið ryðguð og Grænugötuöspin einnig. Brekkan, Keisari, Iðunn og Randi standast ryðið sæmilega, svipað og Hallormur. Sæland er nánast laus við ryð eins og vænta mátti og það er balsamöspin Gredda líka og nokkrir nafnlausir klónar.    

Engar spurnir eru af áberandi asparryði á Egilsstöðum eða Hallormsstað, án þess þó að það hafi verið skoðað í þaula. Lárus Heiðarsson, skógræktarráðgjafi og skógarbóndi á Droplaugarstöðum, telur að svolítið hafi verið um ryð þar í haust. Þá sá Þröstur vægt tilfelli á Silfrastöðum fyrr í haust svo að greinilegt er að ryðið sækir að öspinni víða um landið.

Þá hafa borist fregnir víðs vegar að af landinu um mikið ryð á viðju. Það er önnur ryðsveppategund þótt einkennin séu áþekk. Greinilegur munur er á því hversu viðkvæmir mismunandi klónar viðju eru fyrir ryðinu, rétt eins og hjá öspinni. Hins vegar fer ekki  miklum sögum af birkiryði í sumar. Heldur minna ryð sást á birki í Eyjafirði og Fnjóskadal en í fyrra og það var líka seinna á ferðinni. Birkið í Vaglaskógi var þó orðið að mestu lauflaust þegar leið á septembermánuð og telur Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, að ryðið hafi flýtt þar fyrir.

Allar fregnir af útbreiðslu ryðsveppa í trjágróðri á landinu eru kærkomnar og má senda upplýsingar til Halldórs Sverrissonar á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar. Halldór hefur netfangið halldors@skogur.is. Síminn hjá Skógræktinni er 470 2000.

Texti: Halldór Sverrisson og Pétur Halldórsson