New York borg hefur sett upp vefsjá sem sýnir verðmæti trjánna

Á nýrri vefsjá yfir götutré New York borgar í Bandaríkjunum má nú skoða hvert einasta tré sem borgaryfirvöld hafa umsjón með við götur og torg. Í ljós kemur að þjónusta eins trés getur verið metin á mörg hundruð dollara á hverju ári. Trén tempra vatnsrennsli, spara orku, hreinsa loftið og binda koltvísýring.

Garðeigendur og yfirvöld í borgum og bæjum ættu að hugsa sig tvisvar um áður en tré eru felld. Því stærri sem trén eru því meiri skaði er unninn með því að fella þau. Þetta má ljóslega sjá á vefsjánni sem kölluð er NYC Street Tree Map og finna má á vefslóðinni tree-map.nycgovparks.org. Vefsjánni er meðal annars ætlað að fræða fólk um gagnsemi trjáa í þéttbýli og hvetja það til að hjálpa til við að vernda trén og jafnvel taka þátt í að rækta þau.

Vefsjáin New York City Street Tree Map er nákvæmasta og ítarlegasta kortlagning götutrjáa í heiminum ef marka má það sem fram kemur á vefsíðunni. Með vefsjánni er hægt að ferðast um borgina í huganum, skoða hvert og eitt tré og sjá hversu mikið gagn það gerir. Notendur geta merkt eftirlætistré sín og deilt þeim til vina sinna á samfélagsmiðlum en líka skráð öll þau verk sem þeir vinna í sjálfboðavinnu við að gæta, rækta og hlúa að trjánum.

Um vefsjána

Sjálfboðaliðar mældu og skráðu hvert einasta götutré í New York borg á síðasta ári og þann gagnagrunn bæta starfsmenn skógasviðs borgarinnar og uppfæra á hverjum degi. Á vefsjánni er hvert tré táknað með hringlaga depli og gefur stærð depilsins til kynna ummál stofnsins. Litur deplanna er mismunandi eftir trjátegundum. Þegar smellt er á depil kemur upp síða með heiti trjátegundarinnar á ensku og latínu, mynd af laufblaði tegundarinnar og svo fylgir líka kennitala trésins í kerfi borgarinnar og heimilisfang þess húss sem næst er trénu. Þá má líka smella á mynd úr Google Maps og litast um á staðnum þar sem tréð stendur.

Ekki er síst áhugavert að skoða þær upplýsingar sem birtast með hverju tré um vistkerfis- eða umhverfisþjónustu þess. Fram kemur hversu mikið regnvatn tréð beislar á hverju ári, hversu mikla orku það sparar, hversu mikla mengun það hreinsar úr andrúmsloftinu og hversu miklu minni nettólosun koltvísýrings verður í borginni en væri ef trésins nyti ekki við. Allir þessir þættir eru metnir til fjár og samanlagður fjárhagslegur ábati samfélagsins af þessari þjónustu nemur gjarnan mörg hundruð dollurum á ári.


Hvert tré skiptir miklu máli

Sem dæmi má taka myndarlega eik sem stendur við breiðgötuna Central Park West. Á hverju ári beislar hún 33.66 lítra regnvatns og er sú þjónusta metin á rúma 88 dollara. Hún sparar orku sem metin er á rúma 349 dollara, hreinsar ryk og mengunarefni úr andrúmsloftinu fyrir rúma 36 dollara og samanlögð áhrif trésins til minni útblásturs koltvísýrings reiknast vera ríflega 11,5 tonn. Þar vegur væntanlega þyngst sá orkusparnaður sem tréð veldur. Minni orku þarf að framleiða með olíu, kolum eða gasi til að kæla hús á sumrin og hita þau upp á veturna. Trén hafa líka sömu áhrif á bíla og draga því úr eldsneytisnotkun þeirra þannig að áhrif trjánna eru mun meiri en flestan grunar. Loftslagsáhrif trjágróðurs í þéttbýli eru því ekki eingöngu þau að binda koltvísýring heldur eru aðrir þættir miklu stærri.

Á vefsjánni má skoða einstök hverfi í borginni og fá að vita hversu mörg tré eru í hverfinu og svo getur skráður notandi að vefnum safnað eftirlætistrjám og smellt á „Mín tré“ (My Trees) til að fylgjast með þeim sérstaklega. Þetta getur til dæmis verið hentugt ef fólk vill taka þátt í að vernda, rækta og hlúa að trjám í hverfinu sínu og það er ekki síst tilgangur trjávefsjárinnar að hvetja borgarbúa til slíkra sjálfboðastarfa. Hægt er að setja inn upplýsingar um það sem fólk gerir við trén, hvort sem það vökvar þau, gefur áburð, snyrtir, hreinsar kringum þau eða annað. Svo má deila þessum upplýsingum með vinum sínum og þær verða sýnilegar öllum sem skoða vefsjána. Allt sem gert hefur verið við viðkomandi tré er skráð í ævisögu þess.

Loks má skrá sig á póstlista og fá sendar ýmsar upplýsingar um borgartrén og skóglendi þar sem njóta má útiveru, fræðast um plöntu- og dýralíf og fleira.


Þróunarstarf sem nýst getur víðar

Þúsundir sjálfboðaliða tóku þátt í verkefninu TreesCount! 2015, á síðasta ári þegar trén í New York borg voru skrásett. Notast var við kortlagningaraðferðina TreeKIT til að tryggja nákvæmar mælingar og réttar upplýsingar um tegundir. Vistkerfisþjónusta trjánna er reiknuð út með aðferðum sem þróaðar voru við borgarskógamiðstöðina Center for Urban Forest Research. Niðurstöðurnar eru breytilegar eftir tegund og stærð trésins en fara líka eftir því hvar það stendur. Reynslan hefur kennt borgaryfirvöldum í New York hversu dýrmætt er að fá borgarbúa til liðs við sig í verkefnum sem þessum. Hönnuðirnir stefna að því að breiða þessar aðferðir og tækni út um heiminn og ef til vill kemur að því að við Íslendingar getum séð á augabragði hvað tiltekið tré á tilteknum stað á Íslandi leggur til bættrar tilveru fyrir okkur mennina og þar með fyrir umhverfið og náttúruna.

Texti: Pétur Halldórsson