Björn Traustason flytur erindi sitt á ráðstefnunni á Egilsstöðum.
Björn Traustason flytur erindi sitt á ráðstefnunni á Egilsstöðum.

Rætt við Björn Traustason í Samfélaginu á Rás 1

Ef skógrækt á Íslandi heldur áfram á þeim hraða sem verið hefur síðustu ár næst sett markmið um 5% þekju ræktaðra skóga á láglendi ekki fyrr en nokkuð er liðið á næstu öld. Verði gróðursetning fjórfölduð frá því sem var 2014 verður markmiðinu náð um miðja þessa öld. Þetta kom fram í viðtali við Björn Traustason, landfræðing á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, í Samfélaginu á Rás 1 í dag.

Björn hélt í síðustu viku erindi um þessi efni á ráðstefnunni „Tímavélinni hans Jóns“ sem haldin var í Valaskjálf á Egilsstöðum til heiðurs Jóni Loftssyni, fyrrverandi skógræktarstjóra. Hann fór yfir vaxandi útbreiðslu íslenska birkisins sem kortlögð var í verkefninu Íslenskri skógarúttekt og kynnt á síðasta ári. Töluverð framvinda væri í birkinu vegna ýmissa þátta, meðal annars veðurfarsbreytinga og minnkandi beitar, og birkið hefði breiðst út um níu prósent síðasta aldarfjórðunginn. Heildarflatarmál skóglendis á Íslandi, villtra og ræktaðra skóga, væri orðið um 1,9%, sem samsvaraði því um það bil að Langanes væri allt vaxið skógi.

Á ráðstefnunni á Egilsstöðum leit Björn 70 ár fram í tímann til að sjá hvernig útlit væri fyrir að íslenskir skógar litu út miðað við mismunandi forsendur, bæði breytingar á veðurfari, hugsanleg áhrif skaðvalda á framvindu skóga en einnig hversu mikið yrði lagt í gróðursetningar. Það sem við gerum nú hefur mikil áhrif á hvernig staðan verður árið 2085.


Með hlýnandi veðurfari hækka þau mörk sem kölluð eru trjámörk eða skógarmörk. Mögulegt land sem skógur hefur möguleika til að vaxa á stækkar þess vegna og þegar kemur upp fyrir hálendisbrúnina stækkar þetta svæði mjög hratt. Í þeim líkönum eða sviðsmyndum sem Björn og félagar hans á Mógilsá hafa sett upp var litið á mögulega stöðu 2085. Í fyrsta lagi var miðað við óbreytta gróðursetningu frá árinu 2014, í öðru lagi við tvöföldun gróðursetningar og í þriðja lagi fjórföldun. Niðurstaðan er sú að með óbreyttri gróðursetningu yrði ræktað skóglendi á Íslandi 115.900 hektarar 2085 og skóglendi alls á landinu, ræktað og villt, rétt rúmlega 300.000 hektarar eða um 3% af flatarmáli landsins.

Ef umfang gróðursetninga yrði tvöfaldað yrði flatarmál skóglendis á Íslandi 3,7% árið 2085 og ræktað skóglendi komið í rúmlega 190.000 hektara. Með fjórföldun gróðursetningar frá 2014 yrði skóglendi hins vegar orðið 5,2% af flatarmáli landsins árið 2085 og ræktaðir skógar á landinu þektu 350.000 hektara.

Björn nefndi þau markmið sem sett voru með lögum um landshlutaverkefni í skógrækt fyrir um aldarfjórðungi. Þá var stefnt að því að þekja 5% láglendis á Íslandi skógi á 40 árum. Þetta markmið næðist ekki fyrr en árið 2130 ef haldið væri áfram á þeim hraða sem verið hefur allrasíðustu ár. Með tvöfalt meiri gróðursetningu á ári næðist markmiðið um næstu aldamót en væri gróðursetning fjórfölduð yrði takmarkinu náð um miðja þessa öld.

Spurður um þau andstæðu sjónarmið sem uppi væru með þjóðinni um hvort rækta ætti skóg á landinu eða ekki taldi Björn að þau ætti alveg að mega sætta. Með hlýnandi loftslagi yrðu fleiri svæði ákjósanleg til skógræktar og á láglendi Íslands væru auk þess víða melar og auðnir sem gætu verið ákjósanleg skógræktarsvæði. Benti hann á Skeiðarársand til dæmis, sand sem væri að vaxa upp með birki.

Þá var einnig komið inn á þann fjölþætta ávinning sem fengist með skógrækt og Björn minntist þar sérstaklega á nýgert Parísarsamkomulag um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Í skógrækt fælust möguleikar til bindingar kolefnis en einnig væri bundinn jarðvegur og að auki kæmi fjölþætt nýting þess sem skógurinn gefur, útivistargildi og margvísleg önnur verðmæti. Skógrækt ætti sér mjög langa sögu um allan heim og þar væri mikil reynsla og þekking til að byggja þetta starf á. Íslendingar hefðu líka aflað sér mikillar reynslu og þekkingar á landgræðslu og nú væri endurheimt votlendis til skoðunar sömuleiðis.

Texti: Pétur Halldórsson