Kvistur merkir í raun grein og kvistir í viði eru för eftir greinar sem bolurinn hefur vaxið utan um. Flestar greinar byrja að vaxa um leið og toppsprotar. Á barrtrjám og ungum lauftrjám er oftast einn toppsproti, sem vex á hverju ári og leggur grunninn að bol trésins. Á eldri lauftrjám með breiða krónu geta toppsprotar hins vegar verið margir.

Um leið og toppsprotinn vex upp á við vaxa nýjar greinar þar rétt fyrir neðan, út úr þeim hluta trésins sem var toppsproti ársins áður. Þá geta hliðargreinar einnig myndast á toppsprota yfirstandandi árs, sérstaklega í góðu árferði. Þetta endurtekur sig svo á hverju ári meðan tréð vex; nýjar greinar myndast efst á trénu og yst á greinum sem þegar eru til.

Á hverju ári gildna bolur og greinar með því að bæta á sig einum árhring. Árhringur er lag af viði sem vex rétt innan við börkinn en utan við viðinn sem myndaðist árið áður. Eftir því sem árin líða bætast fleiri árhringir við. Bolurinn vex því utan um innsta hluta greinanna sem sekkur þannig inn í bolviðinn. Þegar borðviður er flettur úr trjám er yfirleitt sagað langsum eftir bolnum og um leið þvert á kvistina sem urðu innlyksa og verða þá sýnilegir.

Byggt á svari Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.

Mynd: Free Photos Bank