Pétur Einarsson sjónvarpsmaður ræðir við Aðalstein Sigurgeirsson, skógerfðafræðing og fagmálastjóra …
Pétur Einarsson sjónvarpsmaður ræðir við Aðalstein Sigurgeirsson, skógerfðafræðing og fagmálastjóra Skógræktarinnar. Skjámynd úr þættinum Súrefni á Hringbraut

Meirihluti þess kolefnis sem binst í skógum Íslands binst í ræktuðum skógum. En Íslendingar geta gert enn betur og innan við tvö prósent landsins þyrfti til að rækta nógu mikinn skóg til að allt kolefni sem við losum yrði bundið á ný í skógi. Þetta er meðal þess sem fram kom í spjalli við Aðalstein Sigurgeirsson, fagmálastjóra Skógræktarinnar, í þættinum Súrefni á Hringbraut.

Þátturinn var sendur út mánudaginn 18. júní. Pétur Einarsson, annar tveggja umsjónarmanna þáttarins, hitti Aðalstein í gróðurhúsi Skógræktarinnar á Mógilsá sem Trjáræktarklúbburinn hefur umsjón með. Þar eru gerðar tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda sem lítið eða ekkert hafa sést í ræktun á Íslandi hingað til.

Í máli Aðalsteins kom fram að af þeim gróðurhúsalofttegundum sem mannkynið losar bindi skógar jarðarinnar um þriðjung. Til samanburðar bindi skógar Íslands einungis um 6,4 prósent. Mestur hluti af þeirri bindingu sé í ræktuðum skógum, aðallega í skógum sem ræktaðir hafa verið frá því um 1990 og bindingin sé alltaf að aukast. Ef Íslendingar fjórfaldi nýskógrækt frá því sem nú er gæti bindingin orðið um miðja öldina um þriðjungur þess sem nú er losað eða 28 prósent.

Aðalsteinn bendir líka á viðarauðlindina sem myndast í uppvaxandi skógum. Þessarar auðlindar verði æ meiri þörf og hann nefnir að í framtíðinni verði byggingar reistar úr timbri en síður úr steinsteypu enda losni um 900 kíló af koltvísýringi fyrir hvert tonn steinsteypu sem frammleitt er. Á hinn bóginn bindist kolefni ef hús eru reist úr timbri og þetta kolefni geymist í byggingunni meðan hún stendur.

Viðtal hefst: 1.11 mín
Viðtali lýkur: 10.14 mín.

Vefur Hringbrautar
Texti: Pétur Halldórsson