Undraverður vöxtur á ösp í Pódalnum

Nokkrir íslenskir skógvísindamenn voru á ferð í Pódalnum á Ítalíu í síðustu viku og skoðuðu þá meðal annars hraðrækt á ösp sem gefur nytjavið á undraskömmum tíma. Með kynbótum og öflugri ræktun er hægt að fá uppskeru af bæði kurlviði og smíðaviði mun fyrr en í hefðbundinni skógrækt. Jafnvel þótt öspin vaxi ekki eins hratt á Íslandi og í Pódalnum geta aspartegundir gefið af sér hratt og vel bæði iðnvið og smíðavið hérlendis.

Mörg okkar kannast vel við Pódalinn úr skólalandafræðinni, að þar rennur áin Pó um dalinn og þar er frjósamt mjög. Pódalurinn er um 46.000 ferkílómetra svæði milli vestanverðra Alpafjalla og Adríahafsins, um 650 kílómetra breitt frá austri til vesturs. Þar eru víða mjög frjósöm landbúnaðarsvæði og veðurfar hentar vel til asparræktar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá aspir sem aðeins hafa vaxið þarna í 6-8 ár þótt ótrúlegt megi virðast. Vaxtarhraðanum hafa menn náð upp með áratuga kynbótum og ræktunin er eins vönduð og þéttbær og hugsasat getur. Hún fer þannig fram að stungið er niður 6 metra löngum, órættum græðlingum sem vökvaðir eru stöðugt fyrsta sumarið um leið og borið er á. S
íðan er komið í veg fyrir samkeppni frá illgresi fyrstu 4-5 árin með stöðugri herfingu og tætingu. Aspirnar eru snyrtar og kvistaðar upp í 10 m hæð.

Í þessari ræktun eru notaðar allar mögulegar aspartegundir frá ólíkum heimshlutum og sömuleiðis ýmiss konar blendinga mismunandi aspartegunda. Viður af svo hraðvaxta trjám verður auðvitað ekki mjög þéttur eða harður en neðri hluti bolanna sem sjást á myndunum duga ágætlega til spónaplötugerðar til dæmis. Efri hlutinn er ýmist nýttur í vörubretti eða sem lífmassi í margs konar framleiðslu.

Ásamt sitkagreni er alaskaösp sú trjátegund sem vex hraðast hér á landi og myndar því mestan við. Við höfum sagt frá því hér á skogur.is að senn muni rísa heilt hús á Fljótsdalshéraði sem að talsverðu leyti verður smíðað úr viði af 20 ára gömlum aspartrjám. Viðarmyndun í alaskaösp getur numið meira en 10 rúmmetrum á hektara við góðar aðstæður og mögulega má auka hana enn frekar með trjákynbótum og betri ræktunaraðferðum.

Helst hefur verið litið til þess að nýta ösp til iðnviðarframleiðslu hérlendis, að kurla viðinn og nýta sem kolefnisgjafa í málmiðnaði. Ef til vill mætti þó skipta ræktun aspar tvennt hérlendis, í lífmassaræktun og viðarræktun. Gróflega áætlað fæst tvöfalt meira fyrir smíðavið en kurlvið og samkvæmt því mætti leggja meira í asparræktina ef afurðin verður smíðaviður. Hærra söluverð viðarins gæti þá staðið undir meiri vinnu við ræktunina, meiri áburðargjöf, illgresiseyðing og meiri vinnu við snyrtingu trjánna. Frekari kynbætur á ösp gætu líka fært okkur öflugri klóna og með meira úrvali klóna gætu menn valið sér réttu klónana eftir því hvað ætti að framleiða, hvort það væri kurlviður til iðnaðar eða orkuvinnslu ellegar flettingarhæfur viður til timburframleiðslu.