Stefán Gíslason hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri S…
Stefán Gíslason hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, undirrita samning um greiningu á kolefnislosun á Norðurlandi vestra og mögulegum mótvægisaðgerðum. Ljósmynd: SSNV.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, hafa samið við Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. um að greina kolefnislosun á svæðinu og mögulegar mótvægisaðgerðir. Vonast er til að þetta verði skref í átt að markvissri kolefnisjöfnun svæðisins.

Frá þessu segir á vef samtakanna. SSNV séu fyrst landshlutasamtaka til að skrifa undir samning um að unnið verði að því að greina  á kolefnisspor alls starfsvæðis samtakanna. Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.  í Borgarnesi, Environice, vinnur verkið undir forystu Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings.

Í samningnum felst að greindar verða helstu orsakir kolefnislosunar á Norðurlandi vestra, svo sem í samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, neyslu íbúa o.fl. Að þeim niðurstöðum fengnum verður greint hvaða möguleikar felast í því að annars vegar að minnka losun kolefnis og hins vegar hvaða mótvægisaðgerðir koma helst til greina í landshlutanum.

Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar landshluta fyrir árin 2018 og 2019.

Í frétt SSNV um málið segir að það sé von samtakanna að með verkefninu verði stigið mikilvægt fyrsta skref í átt að markvissri kolefnisjöfnun svæðisins sem með tímanum skapi tækifæri er koma til með að styrkja byggð í landshlutanum.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin er af vef SSNV sjást Stefán Gíslason, eigandi og stofnandi Umhverfisráðgjafar Íslands ehf., og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, undirrita samning um verkefnið á Byggðaráðstefnu Byggðastofnunar í Stykkishólmi 16. október 2018.

Fréttin á vef SSNV