Skógarbændurnir á Silfrastöðum í Skagafirði hæstánægðir með tíðarfarið

Einstök tíðin í haust og byrjun vetrar hefur nýst vel til ýmissa verka á skógarbýlinu Silfrastöðum í Akrahreppi. Þar hefur meðal annars verið unnið að slóðagerð í skóginum sem nauðsynleg er til að grisja megi skóginn á næstu árum og til frekari timburnytja í fyllingu tímans. Rætt er við Hrefnu Jóhannesdóttur, skógfræðing og skógarbónda, á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Vegfarendur hafa eflaust sumir tekið eftir framkvæmdum í hlíðinni yst í Norðurárdal í Skagafirði í haust. Silfrastaðaskógur nær inn að Kotá í Norðurárdal og þar er yngsti hluti skógarins sem þarf grisjunar við áður en langt um líður eins og gengur og gerist í skógrækt. Vel hefur tekist til við að fella skógarslóðana í landslagið og þeir hverfa alveg sjónum eftir því sem skógurinn vex upp.

Viðtal Ágústs Inga Jónssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Hrefnu er á þessa leið:

Einstakt tíðarfar í haust hefur nýst þeim vel sem stunda útivinnu, ekki síst bændum þessa lands hvort sem þeir stunda hefðbundinn búskap eða til dæmis skógrækt eins og þau Hrefna Jóhannesdóttir og Johan Holst skógfræðingar gera á Silfrastöðum í Skagafirði. Hrefna á vart orð til að lýsa því hvernig veðurfarið hefur tekið á móti þeim en þau fluttu frá Noregi í ágúst í fyrra og tóku þá við búskap á Silfrastöðum af Jóhannesi Jóhannssyni, föður Hrefnu og Þóru Jóhannesdóttur konu hans.

„Þetta er búið að vera alveg frábær tími,“ segir Hrefna. „Við tókum við í ágúst í fyrra eftir frekar leiðinlegt sumar fram að því og komum inn í þetta yndislega haust. Síðan var veturinn sérlega þægilegur og svo dásamlegt vor og sumar og haustið fram á þennan dag. Við erum því rosalega ánægð hérna í skóginum, það er ekki annað hægt.“

Hrefna segir að allar árstíðir kalli á vinnu í skóginum. „Í haust hefur fólk sem hefur verið á ferðinni kannski tekið eftir því að við höfum verið að endurnýja stígakerfið í skóginum því nú fer grisjun að hefjast á fullu á næstu árum. Þá er keðjusögin helsta verkfærið, en svo erum við með lítinn timburvagn til að flytja bolina og þurfum að komast um skóginn með hann. Við erum líka að hugsa til framtíðarinnar þegar bolirnir verða orðnir stærri en svo að við getum dregið þá út með handafli og auðvitað snýst þetta einnig um hagkvæmni í öllu skógræktarstarfinu.“

Mörg handtök liggja að baki skóginum á Silfrastöðum, en þar er búið að planta í hátt í 400 hektara, en einhverjar eyður eru inni á milli. Jóhannes gerði skógræktarsamning við Norðurlandskóga árið 1991 og hófst handa við gróðursetningu. Skógræktarstarfið fór rólega af stað, það urðu einhver afföll vegna þurrka fyrstu árin en í lok tíunda áratugarins var kominn fullur kraftur í skógræktina og þá sérstaklega um og eftir aldamótin.

Þá var samningssvæðið stækkað og komin reynsla og góð rútína í skógræktarstarfið. Jóhannes og Þóra náðu þeim áfanga árið 2009 að búið var að gróðursetja meira en eina milljón plantna og undanfarin ár hafa bæst við um 20-25 þúsund plöntur á ári. Samningssvæðið er nú um 460 hektarar að stærð.

70 sentimetra árssprotar

Skagafjörður hefur breytt talsvert um svip á síðustu árum þar sem ört vaxandi skógur þekur hlíðarnar í Norðurárdal. Athygli vekur hversu hátt skógurinn teygir sig og hann er alls ekki eingöngu á sléttlendi. „Við eigum ekki stærsta skóginn á landinu, en kannski þann lengsta og brattasta,“ segir Hrefna. „Það er stundum erfitt að gróðursetja í grýttri hlíðinni, en samt er ótrúlega mikill jarðvegur undir öllu grjótinu og trén vaxa virkilega vel í þessu. Við fengum metvöxt í sumar og mældum mest tæplega 70 sentímetra árssprota.

Lerkið er sérstaklega duglegt og meira en helmingur af því sem við höfum gróðursett er lerki, næstmest er af birki, og síðan fura og greni. Síðasta árið höfum við gróðursett meira af ösp en áður og þá einkum í frjósama móa, sem liggja á milli túna og nýtast ekki í aðra jarðrækt. Okkur þykir öspin vera spennandi tegund að mörgu leyti, hún vex hratt og myndar gott skjól og asparviður hefur einnig marga skemmtilega eiginleika.“

Allur viðurinn er nýttur

Hrefna segir að síðasta vetur hafi talsvert verið grisjað og muni svo verða áfram á næstu árum og áratugum. Allur viður úr skóginum er nýttur og m.a. til húshitunar á Silfrastöðum en þangað nær hitaveita sveitarfélagsins ekki. Hún áætlar að hátt í 20 þúsund kílóvattstundir í eldiviði séu í viðarstæðum á hlaðinu. Slík kynding er hagkvæmur kostur í stað rafmagnskyndingar og einnig umhverfisvænn því kolefnið sem losnar við brunann hefði annars losnað við rotnun grisjunarviðarins á skógarbotninum.