Auður, heilsa og vellíðan sem norrænum skógum er viðfangsefni hringborðs um gjafir norrænna skóga verður haldið 9.-10. október í Koli-þjóðgarðinum í Finnlandi. Þar verður brugðið upp framtíðarmynd af sjálfbæru lífhagkerfi framtíðarinnar byggt á skógarauðlindinni.

Viðburðurinn dregur nafn sitt af þjóðgarðinum og kallast Koli-hringborðið eða Koli Forum. Þetta er samræðuvettvangur forystufólks um allan heim. Tekið er á málefnum sem snerta náttúruauðlindir og lífhagkerfið einkum lífhagkerfi sem byggt er á skógarauðlindinni. Lífhagkerfi er hagkerfi sem byggt er á sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra auðlinda, öfugt við olíu- eða jarðefnahagkerfið sem byggt er á ósjálfbærri nýtingu takmarkaðra eða óendurnýjanlegra auðlinda.

Þátttakendur við Koli-hringborðið hafa þarna aðgang að mjög miklum upplýsingum og geta tekið þátt í umræðum um þær heildstæðu lausnir sem búa í skógunum, sérstaklega lausnum á vandamálum sem ógna heill og velferð mannanna. Skógarnir eru auðlind sem getur í senn tryggt áframhaldandi velsæld fólks og kveðið niður loftslagsógnina.

Ein meginspurningin er hvernig breyta má viðskiptaumhverfi skógargeirans, meðal annars í takt við þær mikilvægu breytingar sem fylgja nýju flokkunarkerfi Evrópusambandsins fyrir fjárfestingar framtíðarinnar. Hvort tveggja er, að viðfangsefni hringborðsins þykja mikilvæg og þar verða hátt settir og þekktir þátttakendur. Þess vegna hefur viðburðurinn laðað til sín fjárfesta, forystufólk fyrirtækja og stofnana ásamt fagfólki úr skógargeiranum. Og þar er rúm fyrir fólk sem málið varðar til að taka þátt í umræðum, fræðast og leggja sitt til málanna.

Meginsviðfangsefni við hringborðið 9.-10. október verða:

  • Hvernig hafa evrópskir skógar aukið gildi fyrir okkur öll í för með sér?
  • Jafnvægi fórnarkostnaðar og samlegðaráhrifa í sjálfbæru lífhagkerfi sem byggt er á skógum
  • Breytingar á efnahagsumhverfi skógargeirans, þar á meðal sýn fjárfesta á möguleikum í skógargeiranum
  • Bestu leiðirnar til að efla norrænt samstarf og skala upp lágkolefnislausnir. Norræna ímyndin og möguleikarnir sem hún felur í sér

Við hringborðið munu Jari Leppä, landbúnaðar- og skógræktarráðherra Finnlands, og Krista Mikkonen, umhverfis- og loftslagsráðherra, einnig lýsa sýni sinni á viðfangsefni ráðstefnunnar.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson

Skjámynd af vef Koli Forum og hlekkur