„Skakka stæðan í Písa“ sem staðið hefur undanfarna mánuði í Stálpastaðaskógi í Skorradal heyrir brát…
„Skakka stæðan í Písa“ sem staðið hefur undanfarna mánuði í Stálpastaðaskógi í Skorradal heyrir brátt sögunni til.

Skakka stæðan í Písa heyrir sögunni til

Undanfarna daga hefur verið unnið að því að flytja boli úr timburstæðum á Vesturlandi sem sumar hverjar hafa beðið flutningsins lengi. Skakka stæðan í Písa heyrir til að mynda brátt sögunni til.

Afhentir verða 1.500 rúmmetrar af kurlefni til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundar­tanga á næstu vikum. Þar með gefst færi á að fjarlægja nokkrar timburstæður sem staðið hafa í skógum á Vesturlandi mánuð­um saman. Milli þrjú og fjögur hundruð rúmmetrar koma úr stæðum í þjóð­skógun­um í Hvammi í Skorradal og í Norðtungu. Á síðarnefnda staðnum er viðurinn úr grisjun­um á a.m.k. þremur stöðum. Þá er einnig tekinn viður úr Daníelslundi, skógi Skógræktarfélags Borgarfjarðar, tæplega 200 rúmmetrar. Alls verða þetta úmlega sex hundruð rúmmetrar sem ekið verður til Grundartanga úr stæðum á Vesturlandi.

Jón Auðunn Bogason, aðstoðarskógarvörður á Vesturlandi, tók meðfylgjandi myndir í byrjun vikunnar, annars vegar þegar unnið var að því að fjarlægja stæðu á Stálpastöðum í Skorradal sem hlotið hefur heitið "Skakka stæðan í Písa" og hins vegar af stæðu í Norðtungu. Hafi veg­farendur furðað sig á langlífi þessara timburstæðna ættu þær furður nú að vera úr sögunni og viðurinn kominn í far­veg sem sjálfbær iðnviður fenginn úr grisjunum íslenskra skóga.

Samkvæmt samningi Elkem og Skógræktarinnar eykst afhending timburs til Grundartanga á næsta ári upp í 3.200 rúmmetra. Það timbur verður að langmestu leyti fengið með grisjunum úr skógum á Suður- og Vesturlandi og jafnvel rjóðurfellingum reita sem ljóst þykir að ekki muni gefa betra hráefni með meiri vexti. Einkum eru þetta lélegir furureitir. Í slíkum reitum verður gróðursettur betri efniviður enda markmiðið að ná sífellt betri árangri með skógrækt á Íslandi.


Þessi stæða hefur staðið alllengi við Norðtunguskóg í Þverárhlíð í
  Borgarfirði enda tekin að grána nokkuð. Nú verður hún að sjálfbærum iðnvið
sem fenginn er með grisjunum íslenskra skóga.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Jón Auðunn Bogason