(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Skógrækt ríkisins býður til opinnar hönnunarsamkeppni (framkvæmdarkeppni) um hönnun á áningarstöðum í þjóðskógum Skógræktar ríkisins. Samkeppnin er háð gildandi samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands sem er umsjónaraðili samkeppninnar f.h. Framkvæmdasýslu ríkisins.

Skógrækt ríkisins hefur á undanförnum árum og áratugum unnið að því að gera skóglendi í svokölluðum þjóðskógum Skógræktar ríkisins aðgengileg fyrir almenning. Hluti af því verkefni er að gera stíga um skóga og áningarstaði þar sem fólk getur áð. Árið 2012 var ákveðið að  efna til hönnunarsamkeppni um hönnun áningarstaða í fimm skógum víðs vegar um land. Forsendur fyrir hönnuninni eru að á áningarstöðunum yrðu bálskýli og salernisaðstaða og er æskilegt að mannvirkin verði gerð úr viði úr íslenskum skógum að mestu leyti. Á svæðunum yrði gert ráð fyrir leiksvæðum fyrir börn og aðstöðu fyrir skóla.

Tilgangur samkeppninnar er að fá fram áhugaverðar hugmyndir um hönnun á áningarstöðum í þjóðskógum Skógræktar ríkisins. Í samkeppninni á að hanna áningastað fyrir þjóðskóg á Laugarvatni. Æskilegt er að sú tillaga sem ber sigur úr býtum geti orðið fyrirmynd áningarstaða sem ætlunin er að reisa víðsvegar um landið á næstu árum.

Á áningastaðnum skal vera bálskýli, þjónustuhús, leiksvæði barna og aðstaða til útikennslu fyrir skóla. Gera þarf ráð fyrir að áningarstaðirnir yrðu aðgengilegir öllum, þ.m.t. fólki í hjólastólum. Aðalskipulag og deiliskipulag fyrir keppnissvæðið á Laugarvatni er fyrirliggjandi.

Um er að ræða opna framkvæmdasamkeppni. Veitt verða verðlaun að heildarfjárhæð kr. 1.400.000 án vsk.  Stefnt er að því að veita þrenn verðlaun og verða 1. verðlaun eigi lægri en kr. 700.000 án vsk. Dómnefnd getur einnig veitt viðurkenningar fyrir áhugaverðar tillögur.

Dómnefnd skipa:
Hreini Óskarsson skógarvörður á Suðurlandi formaður dómnefndar,
Harpa Stefánsdóttir, arkitekt FAÍ og
Ragnar Frank Kristjánsson, landslagsarkitekt FÍLA
Haraldur Helgason, arkitekt FAÍ er trúnaðarmaður dómnefndar.

Keppnislýsing verður aðgengileg á vef Arkitektafélags Íslands (www.ai.is), vef Félags íslenskra landslagsarkitekta (www.fila.is) á vef Framkvæmdasýslu ríkisins (www.fsr.is) og vef Skógræktar ríkisins (www.skogur.is) og frá og með 15.apríl.2013

Sækja keppnislýsingu

Samkeppnisgögn verða afhent gegn 5.000.- króna skilagjaldi, frá og með 15. apríl 2013 á skrifstofu Arkitektafélags Íslands, Engjateigi 9, 105 Reykjavík á milli klukkan 9 og 13 virka daga. 

Skila skal tillögum til skrifstofu Arkitektafélags Íslands, Engjateig 9, 105 Rvk. Eigi síðar en klukkan 17:00 þann 14. maí 2013.Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir