Nýi hjólastandurinn á Hallormsstað kominn í notkun. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson
Nýi hjólastandurinn á Hallormsstað kominn í notkun. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Fyrsti hjólastandurinn sem smíðaður er úr timbri úr þjóðskógunum hefur verið settur upp við starfstöð Skógræktarinnar á Hallormsstað. Standurinn er liður í því að uppfylla skilyrði til að ná þriðja græna skrefinu í ríkisrekstri.

Hjólastandurinn er innanhússhönnun hjá Skógræktinni og hafa starfstöðvar Skógræktarinnar um allt land verið hvattar til að koma sambærilegum standi upp eins og aðstæður leyfa. Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá Skógræktinni Hallormsstað, sá um smíði og uppsetningu standsins sem er smíðaður úr greni þar úr skóginum. Hann er málaður í einkennislit þjóðskóganna, dalarauðum, til samræmis við skiltahandbók Skógræktarinnar, og á hann fest reiðhjólaskilti úr merkjakerfi skiltahandbókarinnar.

Í standinn voru notaðir tveir stólpar, 12,5x12,5 sentímetrar að sverleika, 180 sm langir. Langborðin eru úr 50 mm þykku efni og 145 mm breiðu, þriggja metra langir. Stólparnir fóru 90 sm ofan í jörðina og á þær voru settar þverspýtur sín hvorum megin, neðan jarðar, til að auka stöðugleika standsins. Allar brúnar á stólpum og borðum eru afrúnnaðar. Standurinn var settur saman með fjórum skrúfteinum, skinnum og róm. Reiðhjólaskilti er báðum megin.

Ein af kröfunum sem gerðar eru í þriðja græna skrefinu hjá ríkisstofnunum er að starfsfólk, gestir og viðskiptavinir geti komið á hjóli á starfstöðvar og læst þeim við örugga hjólastanda sem ekki skemma hjólin. Að nota íslenskt timbur í slíkan stand hlýtur að gera hann enn grænni, jafnvel þótt málaður sé í dalarauðum.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þór Þorfinnsson