Hitinn hefur lokkað marga í Hallormsstaðaskóg undanfarnar vikur og virðist ekkert lát ætla að verða …
Hitinn hefur lokkað marga í Hallormsstaðaskóg undanfarnar vikur og virðist ekkert lát ætla að verða á. Metaðsókn var í júní og það sem af er júlímánuði er sama sagan. Þessi mynd var tekin í Höfðavík 6. júlí. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Fjölmenni hefur verið á tjaldsvæðunum í Hallormsstaðaskógi það sem af er sumri. Metaðsókn var í júní og sömu sögu er að segja það sem af er júlímánuði.

Ekki er ofsögum sagt að besta veðrið í sumar hefur verið á Austurlandi og flykkjast ferðalangar þangað úr öðrum landshlutum, einkum af Suður- og Vesturlandi þar sem sólin hefur lítið látið sjá sig. Hitinn hefur iðulega farið yfir tuttugu stig og fólk hefur ekki þurft að hafa áhyggjur af því að sjá ekki leiki á heimsmeistaramótinu í fótbolta því tjaldverðir hafa vísað fólki á Hótel Hallormsstað sem er í miðjum skóginum og þar er fólk velkomið til að horfa á leikina. Fjallað var um blíðuna og strauminn á tjaldsvæðinn í fréttum Sjónvarpsins.

Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi, í  Atlavík og Höfðavík, bæði mjög vel búin, hvort sem fólk kemur með lítil tjöld eða stór, tjaldvagna, fellihýsi eða hjólhýsi og húsbíla. 

Atlavík er innan við þéttbýliskjarnann á Hallormsstað í hjarta Hallormsstaðaskógar. Margar litlar og stórar flatir eru þar undir birkiskermi. Höfðavík er utan við þéttbýliskjarnann á Hallormsstað, svæðið skiptist niður í 4 svæði og er afmarkanir á þeim með birkiskógi. Neðsta svæðið er niður við fallega vík. Í Atlavík eru tvö salernishús með heitu og köldu rennandi vatni. Þar eru aðstaða til uppþvotta, losunar ferðasalerna, salerni fyrir fatlaða, útigrill, borð og stólar ásamt leikvelli. Flokkunartunnur eru fyrir mismunandi flokka úrgangs.

Í Höfðavík, sem er einnig á fljótsbakkanum en nokkru utar eða norðar í skóginum, eru þrjú salernishús með sturtu. Einnig er þar rafmagn fyrir húsbíla og vagna, losun ferðasalerna, útigrill ásamt borðum og stólum. Flokkunartunnur eru fyrir mismunandi flokka úrgangs.

Tjaldsvæðin í Hallormsstaðaskógi eru opinn frá 5. maí til 1. október. Hæð yfir sjó er aðeins 30-50 metrar.

Meira á Tjalda.is