Hengibjörkin Margrét í Kjarnaskógi er falleg þessa dagana í haustlitum sínum. Hún gæti verið 50-60 á…
Hengibjörkin Margrét í Kjarnaskógi er falleg þessa dagana í haustlitum sínum. Hún gæti verið 50-60 ára gömul. Tréð heitir eftir keðjusög sem Helgi Þórsson átti á sínum tíma og kallaði Margréti. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í Kjarnaskógi í Eyjafirði stendur tignarlegt tré sem gengur undir nafninu Margrét eða jafnvel frú Margrét. Tréð fannst af algjörri tilviljun fyrir um þrjátíu árum þegar unnið var við grisjun á skóginum. Engar heimildir eru til um uppruna þess. Í Sögum af landi á Rás 1 var rætt við Helga Þórsson, bónda og skógræktarmann, annan þeirra sem fundu tréð á sínum tíma.

Helgi vann á þessum tíma við grisjun í Kjarnaskógi ásamt Aðalsteini Svani Sigfússyni. Einn daginn römbuðu þeir á trjátegund sem þeir könnuðust ekki við, eins og segir í kynningu á viðtalinu á vef Ríkisútvarpsins. Þar segir enn fremur:

„Þetta tré kom okkur algjörlega í opna skjöldu. Við fórum strax að skoða það, þetta var svo dularfullt birki, að við fórum að skoða blöð og greinar, og þetta var svo grunsamlega hangandi. Þetta reyndist síðan augljóslega vera hengibjörk.  En það voru engar heimildir til um gróðursetningu og enginn vissi eitt né neitt um þetta tré. Þetta er eins og að finna fjársjóð að lenda í svona,“ rifjar Helgi upp.

Helgi segir fjölmargar ástæður liggja að baki nafngiftinni. Ein þeirra var sú að keðjusögin sem hann notaði á þessum tíma bar nafnið Margrét, enda fór sögin alltaf grenjandi í gang að sögn Helga. Hann tengdi Margrétarnafnið einnig við slútandi greinar trésins sem minna á grátvíði. Þess vegna varð nafnið Margrét fyrir valinu. 

Hengibjörkin Margrét þykir sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar og var valið tré ársins árið 2009 af Skógræktarfélagi Íslands. Tréð var einnig valið tré vikunnar hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga. 

Texti: Pétur Halldórsson