Hreinn Óskarsson skógfræðingur og verkefnisstjóri Hekluskóga, skrifar um skógrækt:

 

Síðustu ár hefur verið unnið að endurheimt birkiskóga í nágrenni Heklu. Var í fyrra stofnað sérstakt samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins um þessa endurheimt í samstarfi við fagráðuneyti stofnananna. Hefur þetta verkefni nokkra sérstöðu meðal skógræktarverkefna þar sem markmið verkefnisins er að verja lönd í nágrenni Heklu gegn öskufoki sem vænta má í kjölfar öskugosa, með því að endurheimta birkiskóga. Verkefnið er því landgræðslu- og skógræktarverkefni í senn. Skógar eru það gróðursamfélag sem þolir hvað best öskufall og geta stálpaðir skógar bundið töluvert magn ösku án þess að bera skaða af. Starfssvæðið er gríðarstórt eða á stærð við Langjökul, um 90 þúsund hektarar lands sunnan, vestan og norðan við Heklu.

Birkiskógar uxu um aldir á Rangárvöllum, í Landsveit, Þjórsárdal, Árskógum og enn lengra inn til landsins. Enn finnast birkiskógar á svæðinu og má helsta nefna Hraunteig, Galtalækjarskóg, Búrfellsskóg, Þjórsárdalsskóga og skóga í Norður- og Suðurhraunum í nágrenni Selsunds. Einnig má finna minni birkitorfur og stök tré langt inn til landsins s.s. á bökkum Þjórsár innan við Sultartangalón. Vaxa skógar og í eyjum Þjórsár og Tungnár sem nú standa á þurru, t.d. Klofaeyjum, Hrauneyjum og Hríshólma. Bera þessir skógar vitni um að skilyrði fyrir slíka skóga eru ágæt á starfssvæði verkefnisins. Þó þessar minjar um merkur fyrri tíma finnist svo víða um svæðið er staðan sú í dag að Hekluskógasvæðið eru að miklu leyti ógrónir vikrar og foksandar.

Hekluskógar hafa á síðustu árum eflt og samhæft það góða uppgræðslustarf sem bændur og aðrir landeigendur á Hekluskógasvæðinu, Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins, landgræðslu- og skógræktarfélög, Landsvirkjun og fleiri hafa stundað á undanförnum áratugum. Í stuttu máli er verkefnið unnið með þeim hætti að græða fyrst upp örfoka lönd og stoppa sandfok, að gróðursetja svo birki, reynivið og víði í trjálundi og -belti og stuðla svo að frekari útbreiðslu trjágróðurs með sjálfssáningu.

Sumarið 2008 voru gróðursettar rúmlega 300 þúsund birki- og reyniviðarplöntur í uppgræðslusvæði. Ýmsir aðilar gróðursettu, þ.á m. bændur í nærliggjandi sveitum, verktakar og íþróttafélög, auk sjálfboðaliða frá ýmsum hópum og starfsfólk úr verkefni Landsvirkjunar „Margar hendur vinna létt verk“. Auk gróðursetningar var 210 tonnum af tilbúnum áburði dreift yfir 1200–1300 ha lands, sem svarar til alls undirlendis frá Kringlumýrarbraut í Reykjavík og allt Seltjarnarnesið út að Gróttu. Einnig var sáð grastegundum í ógróna foksanda í alls um 70 ha lands.

Mikið fræ var á birki í haust. Auglýst var eftir aðstoð almennings við fræsöfnun. Mikil viðbrögð urðu við auglýsingunni og söfnuðust yfir 100 kg af fræi, sem svarar til 30–60 milljóna birkifræja. Skólahópar og aðrir sjálfboðaliðahópar heimsóttu Hekluskóga til að safna fræi. Almenningur sendi fræ til verkefnisins, annaðhvort beint eða til Orkuveitu Reykjavíkur sem tók á móti fræi frá höfuðborgarsvæðinu. Hefur birkifræinu nú þegar að mestu verið sáð beint í hálfgróin svæði og standa vonir til að upp af fræinu spretti trjálundir á næstu árum.

Verkefnið hefur leitað eftir stuðningi við fyrirtæki og hafa Hekla hf., Landsvirkjun og Síminn hf. stutt verkefnið síðustu tvö árin. Vilja aðstandendur Hekluskóga hér með þakka öllu því góða fólki og fyrirtækjum sem studdu við verkefnið í sumar með ýmsum hætti.

Á næsta ári verður aukin áhersla lögð á gróðursetningu birkis og er gert ráð fyrir að gróðursettar verði a.m.k. 500 þúsund birkiplöntur. Er þetta ekki síst gert til að skapa fleiri störf við gróðursetningu og plöntuframleiðslu. Verður minni áhersla lögð á áburðardreifingu í ljósi mikilla hækkana á tilbúnum áburði.

 

Tækifæri verkefnisins

Hekluskógaverkefnið er dæmi um verkefni sem sýnir að með aðstoð heimamanna og sjálfboðaliða má á hagkvæman hátt draga úr afleiðingum náttúruhamfara með endurheimt birkiskóga. Nauðsynlegt er að benda á mikilvægi þess að efla verkefni sem skapar atvinnu á lágtekjusvæðum, styður innlenda framleiðslu og uppfyllir samhliða markmið ríkisstjórnar Íslands um sjálfbæra þróun, líffræðilega fjölbreytni og þjónar sem mótvægi gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 28. október 2008.