Undanfarna daga hafa starfsmenn ræktunarsambands Flóa og Skeiða borað eftir heitu vatni í landi Ásólfsstaða í Þjórsárdal. Nokkrir aðilar standa að þessari heitavatnsborun og eru þeir: Ábúendur á Ásólfsstöðum I sem áttu frumkvæði að boruninni, Landsíminn hf, Búnaðarbanki Íslands, Sjóvá-Almennar, Skógrækt ríkisins og landeigendur að Ásólfsstöðum II. Í gær 3.apríl hittu bormenn á vatnsæð á 526 m dýpi og komu upp 2,5-3 sekúndulítrar af rúmlega 50°C heitu vatni. Bora á nokkra tugi metra til viðbótar í von um meira streymi, en þetta vatnsmagn nægir til að kynda upp íbúðarhús og sumarbústaði í dalnum sem er gríðarmikil búbót fyrir Skógrækt ríkisins sem og aðra dalbúa.

Á meðfylgjandi mynd má sjá bormenn að störfum í gærkveldi. Ljósm. Sigurður Páll Ásólfsson.