Alþjóðlegur sérfræðingafundur um skóga, The Global Forest Summit, verður haldinn í Brussel 24. mars. Þetta er í annað sinn sem fundurinn er haldinn og meðal frummælenda eru John Kerry, sérstakur erindreki Bandaríkjanna um loftslagsmál, og Karl Bretaprins. Hver sem er getur skráð sig til rafrænnar þátttöku í fundinum.

Sérfræðingafundurinn er samfélagslegt frumkvæði og er skipulagning fundarins í Brussel á vegum fyrirtækisins Reforest'Action og stofnunarinnar Open Diplomacy með fulltingi ráðs sem skipað sérfræðingum í fremstu röð. Reforest'Action er fyrirtæki sem aflar fjármagns hjá fólki og fyrirtækjum um allan heim til verndar skóga og aukinnar útbreiðslu þeirra í heiminum. Open Diplomacy er hins vegar sjálfseignarstofnun í Frakklandi sem vinnur að því að  upplýsa ungt háskólafólk um alþjóðasamstarf og mikilvægi þess.

Þessu starfi er ætlað að takast á við tvíþættan vanda loftslags og líffjölbreytni í heiminum. Á vettvangi fundarins eru ólíkir aðilar hvattir til að hraða aðgerðum til verndar skógum, til sjálfbærrar þróunar, til stórfelldrar endurútbreiðslu skóga og til fjármögnunar slíkra verkefna. Sérfræðingaráðið starfar eftir tíu ára áætlun og árlegur fundur þess á að vera nokkurs konar leiðarsteinn í þessu starfi. Hátt settu fólki af ýmsum stigum og með ólíkan bakgrunn er boðið að tala á fundinum og taka þátt í umræðum um framgang þessarar stefnu og þá þröskulda sem þarf að yfirstíga til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um skóga fram til 2030.

Hér eru nokkur dæmi um frummælendur á #GFS2022:

  • John Kerry, sérstakur erindreki Bandaríkjanna um loftslagsmál
  • Karl Bretaprins
  • Dr Juliette Biao Koudenoukpo, skrifstofustjóri  skógarmálaþings Sameinuðu þjóðanna, UN Forum on Forests, og fyrrverandi umhverfisráðherra Beníns
  • Virginijus Sinkevičius, umhverfismálastjóri Evrópusambandsins


Skráning á rafræna þátttöku í fundinum: https://www.globalforestsummit.org/register

Meira á Twitter og Linkedin.

Frétt: Pétur Halldórsson