Mynstraðar hlíðar í landbúnaðarhéraði í Tianlin-sýslu í  Guangxi Zhuang sjálfstjórnarhéraðinu í Kína…
Mynstraðar hlíðar í landbúnaðarhéraði í Tianlin-sýslu í Guangxi Zhuang sjálfstjórnarhéraðinu í Kína. Vel sést hvernig skógur hefur verið ruddur til landbúnaðarnota. Kínverjar hafa hrundið af stað gríðarstóru skógræktarverkefni. Land sem rutt hafði verið til akuryrkju verður klætt skógi aftur, meðal annars til að hamla gegn uppblæstri og jarðvegseyðingu. Mynd: Nick Hogarth/CIFOR

Mikið verk að meta áhrif þess á samfélagið

Kína er yfirleitt ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á skógareyðingu eða skóggræðslu (ný-/endurræktun skóga). Engu að síður er það svo að Kínverjar standa fyrir einhverju mesta skógræktarverkefni sem sögur fara af. Það kallast á ensku Conversion of Cropland to Forests Program (CCFP) sem mætti útleggja á íslensku sem verkefni til að breyta akurlendi í skóg. Verkefni þetta er unnið með svokölluðum PES-aðferðum, Payments for Ecosystem Services. Þar er hugmyndin sú að borga fólki fyrir að vinna verk í þágu vistkerfa. 

Michael T. Bennet, gestafræðimaður við umhverfisvísindasvið Peking-háskóla og ráðgjafi um umhverfismál, er aðalhöfundur nýrrar greinar í tímaritinu Forests. Í greininni er sagt frá rannsókn á því hvað það er í heimilishögum fólks í hverju samfélagi sem ræður mestu um lifun þeirra trjáplantna sem gróðursettar eru undir hatti CCFP-verkefnisins. Tveir meðhöfundar Bennets, Louis Putzel og Nick Hogarth, hafa unnið að því að vega og meta áhrif þessa mikla skógræktarverkefnis í nánu samstarfi við vísindafólk hjá þróunar- og hagfræðistofnun kínversku ríkisskógræktarinnar (FEDRC).

Þjóðarátak gegn jarðvegseyðingu og flóðum

CCFP-verkefninu var hrundið af stað árið 1999 sem hluta af þjóðarátaki í Kína gegn jarðvegseyðingu og flóðum. Þetta var gert í kjölfar flóðanna miklu sem urðu árið áður í Jangtsefljóti og Gulafljóti. Alþekkt er að skógar- og jarðvegseyðing leiðir af sér margvíslegt böl, til dæmis bæði flóð og moldrok. Skóglendi í Kína, einkum í norðausturhluta landsins, var ofnýtt lengi fram eftir síðustu öld og afleiðingin var meðal annars sú að landsmenn, til dæmis íbúar höfuðborgarinnar Beijing, hafa víða þurft að þola moldrok vegna uppblásturs af landi sem áður var skógi vaxið. Nú vilja Kínverjar snúa við blaðinu. Af mörgum verkefnum sem unnið er að til að snúa vörn í sókn er CCFP-verkefnið stærst. Það er lýsandi fyrir breytta skógarstefnu kínverskra yfirvalda sem lengst af snerist aðallega um timburframleiðslu. Nýja stefnan felur í sér víðtækari efnahagslegar og umhverfislegar áherslur.

Stallar með hrísgrjónaökrum í Yunnan-héraði í Kína.
Mynd: Jialiang Gao

Við höfum áður sagt frá verkefni hér á vefnum skogur.is sem kallast á ensku Grain for Green sem þýðir korn fyrir grænt í bókstaflegri þýðingu. Fátæku fólki í fjallabyggðum hefur nú boðist í rúman áratug að fá greitt í bæði korni og peningum fyrir að breyta snauðu og bröttu akurlendi í skóg eða graslendi. Þetta er hluti af hinu stóra CCFP-verkefni og nú hafa 32 milljónir sveitaheimila ræktað nýjan skóg á yfir 24 milljónum hektara lands. Það samsvarar 34.000 km3, meira en þrisvar sinnum stærð Íslands. Þetta verkefni er bæði sagt hafa jákvæð áhrif á lífskjör fólks í dreifbýlinu og bera mikinn umhverfislegan árangur.

Hver er árangurinn?

En getur þetta verið satt? Hafa markmið CCFP-verkefnisins virkilega náðst? Er hægt að ná efnahags- og félagslegum markmiðum jafnhliða því að ná árangri í umhverfismálum? Hvernig er með góðu móti hægt að meta árangurinn, varpa ljósi á það sem miður hefur farið og greina hvað af þessu er hægt að skrifa á reikning verkefnisins, gott eða slæmt? Menn spyrja sig líka hvað gerist að verkefninu loknu, hvort fólkið í sveitunum muni halda áfram að gróðursetja tré og hirða um þau þegar hætt verður að greiða út styrki til þess. Sömuleiðis er forvitnilegt að bera saman árangur verkefnisins frá einum stað til annars, í mismunandi samfélögum og ólíkum vistkerfum.

Margs er spurt en rannsóknir virðast sýna (sjá hér, hér og hér) að CCFP-verkefnið hafi stuðlað að bættum lífskjörum fólks en á hinn bóginn virðast hafa minna verið rannsökuð umhverfisleg áhrif eða ávinningur verkefnisins. Þó virðist sjást marktækur munur milli héraða og svæða. Hafa verður í huga hversu gríðarlega stórt þetta skógræktarverkefni er og Kína stórt land. Það er því væntanlega ekkert áhlaupaverk að meta áhrifin.

Einstök gögn, einstakar uppgötvanir

Áðurnefndur Michael T. Bennett og samstarfsfólk hans nýta sér þetta mikla og einstaka gagnasafn til að meta hvaða náttúrufarslegir og samfélagslegir þættir á hverjum stað ráða mestu um lifun gróðursettra trjáplantna. Upplýsingarnar eru byggðar á svörum ábúenda á hverjum stað úr vettvangsrannsóknum sem gerðar voru árið 2010. Þá heimsóttu 125 stúdentar frá skógræktaráskólanum í Beijing 2.808 sveitabýli sem tóku þátt í CCFP-verkefninu. Stúdentarnir unnu verkið í samvinnu við FEDRC-stofnun kínversku ríkisskógræktarinnar. Það er talið gagnasafninu til tekna að stúdentarnir nýttu vorfrí sitt til að safna gögnunum á eigin heimaslóðum. Það var með öðrum orðum heimafólk sem vann að söfnuninni. Fyrst fengu stúdentarnir þó þjálfun í gagnasöfnun og skráningu til að tryggja að gögnin yrðu sem áreiðanlegust.

Til að greina gögnin sem safnað var þurfti að beita sérstökum aðferðum (interval regression model) enda aðstæður ólíkar á hverjum stað og ekki hægt að fá nema grófa mynd af vissum atriðum eins og afkomu fólks meðal annars. Gögnin gáfu þrátt fyrir það ýmsar áhugaverðar niðurstöður:

  • Meiri lifun mældist á trjáplöntum hjá býlum eftir því sem vinnandi hendur voru fleiri og eftir því sem meiri reynsla var af meðhöndlun trjáplantna.
  • Býli sem njóta stöðugra styrkja og býli sem höfð voru með í ráðum áður en verkefnið hófst ná líka betri lifun í skógrækt sinni.
  • Þar sem samkeppni er um landrými til annarra nota var lifun verri.
  • Á býlum þar sem býr fólk af minnihlutahópum reyndist lifun vera minni en annars staðar.
  • Sömuleiðis mældist minni lifun á skógræktarsvæðum þar sem bjó aðflutt fólk (í samanburði við fólk sem upprunnið var á viðkomandi stað eða svæði).

Auk gagnlegrar aðferðarfræði sem af þessu fæst gefa niðurstöður Bennetts og félaga mikilvægt vegarnesti fyrir frekari rannsóknir. Gögnin geta líka nýtast til að skipuleggja áframhald CCFP-verkefnisins ef af verður.

Þá er sömuleiðis mikilvægt að glöggva sig á áhrifum CCFP-verkefnisins í mismunandi landslagsgerðum í Kína. Um 65 prósent lands í Kína eru hæðótt og fjalllend. Um helmingur kínversku þjóðarinnar, aðallega smábændur, býr í hlíðum fjalla og hæða. Mjög gagnlegt er að komast að því hvaða áhrif skógræktarverkefnið mikla hefur á bæði líf fólksins og á vistkerfin, hvort verkefnið stuðlar bæði að betri lífsskilyrðum fólks og endurhæfingu vistkerfanna. Þessi vitneskja getur hjálpað til við að finna jafnvægi í þessu svo bæði sé sinnt þörfum fólksins á hverjum stað og unnið að breiðari markmiðum um til dæmis vistkerfismálefni, kolefnisbindingu, stöðvun jarðvegseyðingar o.s.frv. Skóglendi er víða að breytast í Asíu eins og annars staðar í heiminum. Breytingarnar geta stafað af flutningi fólks úr sveitum í borgir en líka af skógræktarverkefnum á vegum ríkis eða sveitarfélaga. CCFP-verkefnið stóra er auðvitað verkefni af þeim toga.

Skógur í Jiuzhaigou-dalnum í héraðinu Sichuan í Kína.
Mynd: Alpha

Umbreyting hæðanna

Önnur lönd sem glíma við umrædd vandamál gætu lært af reynslu Kínverja. Hins vegar eru vísindamenn hjá FEDRC líka áhugasamir um að læra af reynslu annarra landa Asíu. Meðal annars vilja þeir bera saman sína reynslu og annarra. Í því skyni hefur CIFOR hrundið af stað nýju rannsóknarverkefni sem kallast á ensku Sloping Lands in Transition (SLANT) sem þýða mætti sem umbreytingu hæðanna.

Þjóðir heims afgreiddu nýlega svokallaða New York yfirlýsing um skóga og þar með sett sér metnaðarfull markmið um verndun skóga og skóggræðslu eða endurhæfingu skóglendis. Markið var sett á að endurhfæa 150 milljónir hektara af rofnu landi og skóglendi fyrir 2020 og stórauka starfið upp úr því þannig að við bættust að minnsta kosti 200 milljónir hektara fyrir 2030. Kínverjar líta á skógræktaráætlanir sínar sem mikilvægt afl á leiðinni til sjálfbærrar þróunar og því hefur CCFP-verkefnið margvíslega þýðingu, meðal annars svo fólk skilji hvað er í húfi þegar meiningin er að ná alþjóðlegum markmiðum án þess að ganga á þarfir heimafólks á hverjum stað.

Ef frekari upplýsinga um þessa rannsókn er óskað má hafa samband við Kiran Asher í k.asher@cgiar.org.

Verkefni CIFOR, Sloping Lands in Transition (SLANT), nýtur stuðnings KNOWFOR, verkefnis sem ætlað er að miðla þekkingu og rekið er annars vegar á vegum breska þróunarmálaráðuneytisins (UK Department for International Development) og hins vegar CGIAR Research Program on Forests, Trees and Agroforestry sem er rannsóknarverkefni um skóga, tré og landbúnaðarskógrækt undir hatti CGIAR, samráðshóps um alþjóðlegar landbúnaðarrannsóknir.

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd efst t.h.: Nick Hogarth/CIFOR