Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er nýr ráðherra skógarmála. Mynd: Stjórnarráðið
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er nýr ráðherra skógarmála. Mynd: Stjórnarráðið

Nýtt matvælaráðuneyti tók formlega til starfa um mánaðamótin og þar með er Skógræktin einnig komin formlega í nýtt ráðuneyti. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra efndi að því tilefni til fundar með starfsfólki allra stofnana sem heyra undir ráðuneytið. Fundinn sótti hátt í 300 manns og þótti hugur í fólki að efna til spennandi samstarfs milli stofnana.

Auk Skógræktarinnar heyra undir hið nýja ráðuneytið fimm aðrar stofnanir og eitt opinbert hlutafélag. Þetta eru Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, Matvælastofnun, Landgræðslan og Matís.

Í matvælaráðuneytinu, sem hefur fengið skammstöfunina MAR, mætast málaflokkar sjávarútvegs, landbúnaðar og matvæla auk landgræðslu og skógræktar. Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni, jöfnuð og nýsköpun. Í stefnumiði þess segir:

„Í matvælaráðuneytinu horfum við til þess að Ísland verði í fremstu röð á heimsvísu í framleiðslu hágæða matvæla. Við leggjum áherslu á ábyrga umgengni við náttúru og sjálfbæra nýtingu auðlinda, öfluga nýsköpun og vöruþróun í hæsta gæðaflokki,“

Ýmsir samstarfsfletir

Sögufærsla ráðherra á samfélagsmiðlum eftir fundinn með nærri 300 starfsmönnum stofnana matvælaráðuneytisinsRáðherra bauð öllu starfsfólki stofnana ráðuneytisins til kynningarfundar í morgun, 2. febrúar, en á fyrsta degi nýs ráðuneytis höfðu forstöðumenn þessara sömu stofnana komið saman á sínum fyrsta fundi með ráðherra. Á fundinum í morgun hélt ráðherra ávarp og fór yfir stöðu og hlutverk hins nýja ráðuneytis, hugmyndirnar að baki því og viðfangsefnin fram undan þar sem sjálfbærni og heilbrigði vistkerfa verður í hávegum. Því næst fluttu allir forstöðumenn stofnananna stutt ávörp. Reifaðar voru ýmsar hugmyndir um samstarfsfleti þessara stofnana sem fljótt á litið kunna að virðast ólíkar og óskyldar. Meðal annars kom Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, inn á þetta og nefndi samstarfsfleti við Skógræktina sem sæjust t.d. í því að þróað hefði verið fiskafóður úr hliðarafurðum trjáa.

Binda þarf kolefni

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði m.a. í ávarpi sínu að nú mætti segja að Skógræktin væri „komin heim“ því lengst af sögu Skógræktarinnar hefðu skógræktarmál heyrt undir ráðherra landbúnaðarmála. Hann reifaði þá spennandi tíma sem nú væru í skógrækt í takti við loftslagsaðgerðir, bæði aðgerðir hins opinbera og ýmissa annarra aðila, enda væri ljóst að markmið myndu ekki nást með því einu að draga úr losun. Samhliða þyrfti að binda eitthvað af því kolefni sem út af stæði með tiltækum aðferðum. Skógrækt væri þrautreynd aðferð og lengst komin á veg hvað varðaði staðfestingu og vottun bindingarinnar.

Í lok fundarins sem fram fór í fjarfundakerfi var tekin mynd af hluta þeirra nærri 300 starfsmanna stofnananna allra sem sóttu fundinn og sendi ráðherra sögu á samfélagsmiðlum um fundinn og þátttökuna

Texti: Pétur Halldórsson