Bústinn og frísklegur fjallaþinur fær moltuskammtinn sinn.
Bústinn og frísklegur fjallaþinur fær moltuskammtinn sinn.

Skólinn hefur verið með í samstarfinu Lesið í skóginn frá upphafi

Hlíðaskóli í Öskjuhlíð í Reykjavík er sextíu ára í dag, 8. júní, og að því tilefni var í gær efnt til hátíðargróðursetningar í grenndarskógi skólans. Fjórir nemendur úr hverjum árgangi tóku þátt í gróðursetningunni. Unnið hafði verið að undirbúningi um tíma í samvinnu við umhverfissvið borgarinnar sem hefur umsjá með Öskjuhlíðinni og starfsfólk Ræktunarstöðvarinnar í Fossvogi sem framleiddi fjölskrúðugar og myndarlegar trjáplöntur í þessa gróðursetningu.

Trén voru gróðursett í nokkuð stóran hring með góðu millibili og krónutrjám og barrtrjám plantað á víxl. Meðal tegunda sem gróðursettar voru má nefna ask, hlyn, þöll, fjallaþin, lerki, hrossakastaníu, silfurreyni og ilmreyni.

Á þessum stað austast í Öskjuhlíðinni eru helstu trjátegundirnar birki, stafafura og sitkagreni. Hlíðaskóli hefur verið með frá upphafii ísamstarfinu Lesið í skóginn og er einn fárra skóla sem boðið hafa upp á skógarval í 9. og 10. bekk í tengslum við náttúrufræði- og smíðakennslu í skógartengdu útinámi.

Það vakti athygli að allar plönturnar fengu heimagerða moltu í gróðursetningunni. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá gróðursetningunni sem fór fram undir stjórn Kristrúnar G. Guðmundsdóttur skólastjóra, Einars Kristjáns Hilmarssonar smíðakennara og Ketils Helgasonar kennara.

Texti og myndir: Ólafur Oddsson