Haförn kemur inn til lendingar á Tumastöðum fyrr í vikunni.
Haförn kemur inn til lendingar á Tumastöðum fyrr í vikunni.

Fylgjast má með varpinu í vefmyndavél

„Frétt“ í tilefni af 1. apríl 2015

Undanfarið hafa hafernir gert sig heimakomna í skóglendi Skógræktar ríkisins að Tumastöðum í Fljótshlíð og hefur einnig sést til þeirra víða í nágrenninu. Virðist sem hafarnarpar sé að undirbúa varp í sitkagrenitré í skóginum. Tréð er stæðilegt og hentar einkar vel til hreiðurgerðar fyrir stóra fugla því það missti toppinn í einum af stormum vetrarins.

Hrafn Óskarsson, fuglaáhugamaður og starfsmaður Skógræktar ríkisins á Tumastöðum, hefur fylgst með örnunum síðustu daga og telur að þeir séu byrjaðir að tína greinar í hreiður efst í brotna trénu. Er þetta í fyrsta sinn sem vitað er til að hafernir verpi í trjám á Íslandi, þótt grenitré séu algengir varpstaðir hafarna víða um lönd, t.d. í Danmörku.

Ekki er hægt að greina nákvæmlega frá í hvaða tré ernirnir eru að gera sér hreiður enda eru hafernir alfriðaðir á Íslandi og bannað að nálgast varpstaði þeirra. Fólk getur þó fylgst með trénu sem talið er að ernirnir séu að undirbúa varp í því Skógrækt ríkisins hefur sett upp vefmyndavél í skóginum á Tumastöðum. Smellið hér til að skoða.