Þann 21. ágúst sl. felldu starfsmenn Skógræktarinnar ösp á Ormsstöðum í Hallormsstaðarskógi sem mældist 20 metrar og 80 sentimetrar á hæð.   Líklega er um að ræða hæsta tré sem fellt hefur verið hér á landi.  Fellingin er liður í rannsóknaverkefni sem metur bindingu kolefnis í íslenskum skógum.  Kvæmi asparinnar er Kenai Lake, Alaska.  Vöxtur þessarar aspar hefur verið mikill, því einungis eru 32 ár síðan hún var gróðursett.   Heildarþyngd trésins var 760 kg. 

Um aspirnar á Ormsstöðum segir Sigurður Blöndal fyrrverandi skógræktarstjóri í ritinu Innfluttar trjátegundir í Hallormsstaðaskógi(1995/bls. 21):  "Vorið 1970 voru 210 aspir gróðursettar í framræsta mýri á Ormsstöðum.  Bil milli plantna var 4 - 5 m og er teigurinn um hálfur ha.  Haustið áður voru holur grafnar með vélgröfu.  Þær voru fylltar um vorið með búfjáráburði (sem svaraði til a.m.k. tveimur hjólbörum í hverja).  Plönturnar voru fjögurra og fimm ára gamlar, um 2ja m háar.  A.m.k. tvisvar hafa toppar brotnað af mörgum trjám í þessum teig í  SA-hvassviðri, svo að krónur eru tví- og þrístofna frá 7-9 m hæð.  Samt hafa þau vaxið mjög vel, einkanlega á þverveginn.  Þetta er annar stóri teigurinn, sem gróðursettur var af alaskaösp á Íslandi, næst á eftir asparlundi Hermanns Jónassonar á Kletti í Reykholtsdal, sem er 15 árum eldri".