Séð upp eftir hæsta tré landsins, 65 ára gömlu sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri
Séð upp eftir hæsta tré landsins, 65 ára gömlu sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri

Hefur bundið 2,1 tonn af koltvísýringi

Í skóginum á Kirkjubæjarklaustri eru myndarleg sitkagrenitré sem gróðursett voru árið 1949. Skömmu áður hafði heimafólk á Klaustri girti af brekkurnar ofan við bæinn og fyrstu árin voru gróðursett um 60.000 birkiplöntur. Hjónin Helgi Lárusson og Sigurlaug Helgadóttir áttu stóran þátt í því að til skógarins var stofnað. Á næstu árum var bætt inn sitkagreni, lerki og furutrjám en um 1964 var gerður samningur við Skógrækt ríkisins um viðhald girðinga og umsjón með skóginum.

Ekki er með óyggjandi hætti hægt að fullyrða hvaða tré er hæst hérlendis en engar fregnir hafa nú borist í nokkur ár af tré sem gæti skákað hæsta sitkagrenitrénu á Kirkjubæjarklaustri.

Þetta „meinta“ stærsta tré á Íslandi var mælt með nýjustu tækni í gær, 13.ágúst. Þar voru á ferðinni Edda S. Oddsdóttir og Arnór Snorrason, sérfræðingar á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, ásamt tveimur sænskum skógfræðinemum sem taka þátt í vinnu við Íslenska skógarúttekt þessa dagana og heita Hanna og Mathias. Hópurinn tók sig til og mældi umrætt tré sér til gamans en síðast var það mælt fyrir tveimur árum.

Sitkagrenið háa reyndist 26,1 m á hæð. Við mælingu 2011 var það 24,8 m og 25,3 árið 2012. Tréð er enn í fullum vexti og hefur á þessu ári vaxið um það bil 50 cm.

Þvermál trésins í 1,3 m hæð reyndist 45 cm, sem þýðir að tréð er um 1,8 m3, inniheldur um 580 kg af kolefni (C) og hefur bundið 2,1 tonn af CO2 (bæði ofan- og neðanjarðar). Losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum nam ríflega 4,5 milljónum tonna árið 2010 mælt í CO2-ígildum samkvæmt upplýsingum af vef Umhverfisstofnunar. Losunin hérlendis samsvarar því ríflega 2,1 milljón trjáa á borð við sitkagrenið myndarlega á Kirkjubæjarklaustri.

Myndir: Edda S. Oddsdóttir
Texti: Edda S. Oddsdóttir og Pétur Halldórsson