Minna var gróðursett á árinu en oft áður eða um 930 þúsund plöntur.  Kemur þar til að haustið 2002 var sérstaklega gott til plöntunar og var allt hreinsað upp af planinu í Barra sem hægt var að setja niður.  Vegna fjárskorts var enn fremur ákveðið að skera niður þriðjung af haustgróðursetningunni.

Þeir hörðustu byrjuðu að gróðursetja strax í apríl, enda var tíðin mjög góð.  Stuttu seinna kom þó hretið og einhverjar skemmdir urðu á plöntum sem komnar voru út.  Þegar leið á sumarið reyndust þær þó ekki vera mjög alvarlegar.

Frostlyfting hefur verið vandamál í köldum og ?dauðum? lyngmóa þegar gróðursett er í jarðvinnslu.  Í þessari landgerð hafa menn reynt að koma í veg fyrir frostlyftingu með því að gróðursetja í jaðar flekksins, og þannig vonast til þess að trjáræturnar nái að binda sig við lyngið.  Þetta hefur hins vegar þá ókosti að ekki er verið að nota jarðvinnsluna nema til hálfs.  Á Suðurlandi hafa menn um nokkurra ára skeið blandað rýgresi saman við áburðinn.  Þetta var tekið upp á sumum jörðum á Héraði í sumar.  Hugmyndin að baki þessu er að þá megi gróðursetja í miðjan jarðvinnsluflekkinn, rýgresið gefi plöntunum nægjanlega rótfestu og skýli því fyrsta veturinn.  Á öðru ári er rýgresið dautt, en plantan vex óhindruð upp úr því (sjá viðauka: Leiðbeiningar um notkun rýgresis).  Þetta virðist hafa gefið nokkuð góða raun, þó úr því verði ekki skorið fyrr en næsta sumar.  Helst var ábótavant að rýgresisskammturinn var stundum of eða van og það er greinilegt að það krefst töluverðrar nákvæmni að blanda grasfræi og áburði í réttum hlutföllum.

Töluverð þekking hefur safnast í sarpinn síðan að fyrstu skógræktaráætlanirnar voru gerðar og í ljósi reynslunnar og nýrra áherslna þarf að endurskoða þær.  Samfara þessu hefur verkefnið stækkað og ný svæði tekin inn þar sem ekki duga allar aðferðir sem ganga upp í Fljótsdalnum.   Eftirfarandi er hugleiðing um helstu áherslur ráðunautar Héraðsskóga í gróðursetningum, en hún er engan hátt tæmandi og ekki ber að skoða hana sem neitt annað en leiðbeinandi í grófum dráttum.

· Notkun á Rússalerki er minni en áður.  Lerki er ennþá sú tegund sem mest er gróðursett af, en hún hentar ekki jafn vel á öllum stöðum.  Það á sérstaklega við Úthéraðið.  Tilgangur lerkisins hefur færst meira að vera fóstrutré/skermtré fyrir aðrar tegundir og jarðvegsbætir en eingöngu að framleiða beinvaxna viðarboli.
· Stafafuran hefur einnig átt undir högg að sækja undanfarið, sérstaklega vegna lélegs rótarkerfis.  Reiknað er með að einhver hluti furunnar velti um koll áður en að lokahöggi kemur.  Hún hentar þó mjög vel sem fóstra á svæðunum þar sem lerki þrífst illa.
· Samfara samdrætti í furu og lerki sækir grenið á.  Sérstaklega sitkagrenið.  Það þolir rýrari jarðveg og verri skilyrði en menn töldu þegar fyrstu áætlanirnar voru gerðar.
· Öspin sækir einnig á.  Hingað til hefur asparræktunin verið bundin við fáa klóna (nær eingöngu halla).  Í því var fólgin töluverð áhætta og til að minnka hana hefur verið ákveðið að gera klónablöndur fyrir mismunandi svæði.  Öspin er aðallega hugsuð sem fóstra fyrir greni.
· Íslenskt birki hefur verið gróðursett í talsverðum mæli á undanförnum árum.  Í ljós kemur að allstaðar (allavega á Upphéraði) þar sem friðun fyrir búpeningi hefur haldið í nokkur ár kemur upp sjálfsáð birki.  Þess vegna sjáum við ekki lengur tilgang í að nota tíma og fjármuni í að gróðursetja það á stöðum þar sem það kemur hvort eð er.  Öðru máli gegnir um Úthéraðið, þar sem náttúrulegi fræbankinn gefur ekki nema kjarr af sér.  Þar er full ástæða til að gróðursetja úrvalsbirki til kynbóta.

Áfram verður að sjálfssögðu að meta aðstæður á hverjum stað og velja leiðir að þeim markmiðum sem menn setja sér hverju sinni.

Loftur Þór Jónsson skógræktarráðunautur.