Jacob Jensen og Anne Sofie Lohals, starfsnemar frá Kold College í Danmörku, og Lucile Delfosse (fyri…
Jacob Jensen og Anne Sofie Lohals, starfsnemar frá Kold College í Danmörku, og Lucile Delfosse (fyrir miðju), starfsmaður Suðurlandsdeildar Skógræktar ríkisins á Tumastöðum, við gróðursetningu á degi jarðar 2016.

Góður vísir að nýrri hefð meðal skógræktarfólks

Nokkuð var um að skógræktarfólk brygðist við því kalli að gróðursetja tré á degi jarðar, 22. apríl. Vel viðraði til gróðursetningar um allt land þennan dag og væri gaman ef sú hefð myndi festast í sessi að setja niður tré á þessum alþjóðlega degi sem helgaður er jörðinni. Tré geta gegnt mikilvægu hlutverki við að tryggja framtíð mannsins og annarra lífvera á jörðinni.

Sólin skein á Suðurlandi á degi jarðar. Í tilefni dagsins gróðursettu þau Jacob Jensen og Anne Sofie Lohals, starfsnemar frá Kold College í Danmörku, og Lucile Delfosse, starfsmaður Suðurlandsdeildar Skógræktar ríkisins á Tumastöðum (í miðjunni), nokkra bakka af lindifuru og fjallaþin í landi Kollabæjar. Þessa fallegu mynd af þremenningunum tók Hrafn Óskarsson, ræktunarstjóri Skógræktar ríkisins á Tumastöðum.


Á Héraði var líka blíðviðri þennan dag. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri tók sér hádegishlé frá vinnu, skrapp heim og gróðursetti sitkagrenitré í tilefni dagsins. Plantan er þannig tilkomin, segir Þröstur, að fyrir 3-4 árum var kona hans, Sherry, skógfræðingur hjá Héraðs- og Austur­lands­skóg­um, við úttekt á gróðursetningu á bæ einum í Jökulsárhlíð og fann þar bakka með sitkagreni sem hafði gleymst úti í móa sumarið áður. Um 20 plöntur voru með lífsmarki þótt furðulegt megi virðast og setti Þröstur þær í beð. Plönturnar brögguðust flestar og verða nú að gleymda lundinum svokallaða (the forgotten forest) á Höfða þar sem Þröstur býr. Þröstur segir:


„Á meðan ég var að gróðursetja söng glókollur fyrir mig í nálægu tré og ég hugsaði með mér að afkomendur hans ættu einhvern tíma eftir að gera sér hreiður í grenitrénu gleymda.“

Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógrækar, Mógilsá, tók sér frí á degi jarðar en þó aldeilis ekki  frí frá skógrækt. Daginn notaði hann til að stinga niður nokkrum þúsundum órættra græðlinga af ýmsum úrvalsklónum alaskaaspar í blautan mel ofan við sumarbústað sinn í Ölfusi.

Myndin hér að neðan var tekin að afloknu verki og sýnir græna línan svæðið á melnum sem nú er búið að breyta í asparskóg. Þarna er mikil frostlyfting í umhleypingasamri vetrarveðráttu, segir Aðalsteinn. Til þess að draga úr frosthreyfingum hyggst hann sáldra 10 g af tilbúnum áburði um þegar stiklingarnir hafa laufgast. Síðan þarf að bera á þetta fyrstu árin þar til frostlyftingarvandamálin eru að baki og þar til lúpínan er farin að skila sínu.Nú kann einhver að spyrja hvort þetta virki. Reynsla Aðalsteins er sú að þetta ætti að duga. Fyrir 20 árum gerði hann það sama við annan mel skammt frá. Hann stakk víðigræðlingum í melinn og gróðursetti stafafuru í kring. Nú er stafafuran orðin hærri en víðirinn og gamli melurinn að byrja að fyllast af sjálfsánu birki og stafafuru. Fólkið á myndinni hér til hægri eru þau Njörður Geirdal og Sigurbjörg Snorradóttir, skógarbændur að Galtalæk í Biskupstungum.

Tveir starfsmenn Skógræktar ríkisins á Akureyri, Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson, stóðu líka upp frá skrifborðinu á degi jarðar og settu niður um 15 bakkaplöntur, bæði sitkagreni og lerki ('Hrym'). Trén voru gróðursett á völdum stöðum í elsta hluta skógarins við Gömlu-Gróðrarstöðina þar sem Akureyrarskrifstofa Skógræktar ríkisins er til húsa ásamt Norðurlandsskógum.


Saga þessara trjáplantna er ekki með öllu ólík grenipöntunnar sem Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri gróðursetti í Höfða í tilefni dagsins og lýst er hér að framan. Þessum bakkaplöntum var bjargað úr haug þar sem þeim hafði verið fleygt eftir gæðaprófanir. Nú eiga þær framtíðina fyrir sér.


Líf er óðum að kvikna í skóginum. Seljan er komin af stað og kerfillinn í skógarbotninum teygir sig upp úr moldinni. Nú er bara að vona að hretið verði ekki hart. Skógarskjólið ætti þó að vernda þessar trjáplöntur. Eins og sést má enn finna snjó í skóginum. Það er til marks um hvernig skógur temprar allar sveiflur. Snjórinn bráðnar hægar í skóginum en í óskógi og því rennur leysingarvatnið hægar, nýtist frekar í skóginum og veldur síður rofi eða næringarefnatapi.


Þá er hér falleg mynd sem  Heimir Sigurðsson sendi okkur af efnilegu rauðgreni sem hann gróðursetti í tilefni dags jarðar í reit 18 í landi Skógræktarfélags Garðabæjar. Þennan reit hefur Heimir til umsjónar. Svæðið heitir Smalaholt og er við Vífilsstaðavatn en reitinn sinn kallar Heimir Sigurhæð. Það á vel við enda er öll skógrækt sigur, stór sem smá. Neðst er svo nýgróðursettur ´Hrymur' á Akureyri.Texti: Pétur Halldórsson