Í gróðrarstöðinni í Biri eru ræktaðar milljónir greniplantna á hverju ári. Ljósmynd af vef NRK: Lars…
Í gróðrarstöðinni í Biri eru ræktaðar milljónir greniplantna á hverju ári. Ljósmynd af vef NRK: Lars Erik Skrefsrud/NRK

Ferðatakmarkanir til Noregs valda framleiðendum skógarplantna í landinu nú áhyggjum því verkafólk frá öðrum löndum sem þangað hefur komið til að gróðursetja á nú bágt með að komast þangað. Biðlað er til almennings í Noregi að ráða sig í vinnu við gróðursetningu til að bjarga málunum. Í húfi sé ekki bara gróðursetning ársins heldur loftslagið á jörðinni.

Frá þessu er sagt á vef norska ríkisútvarpsins NRK og rætt við Arne Smedstuen, framkvæmdastjóra hjá gróðrarstöðinni Skogplanter Østnorge í Biri. Nú er fram undan sá tími þegar árlega eru gróðursettar milljónir greniplantna á skógræktarsvæðum vítt og breitt um Noreg. Erlent vinnuafl hefur skipt miklu máli í þeim verkefnum en nú komast hinir erlendu verkamenn ekki til Noregs vegna ferðatakmarkana af völdum COVID-19 faraldursins.

Ferðabönn og takmarkanir

Arne segir í viðtali við NRK að margt af þessu verkafólki hafi komið frá löndum þaðan sem krafist er vegabréfaáritunar til Noregs. Nú afgreiði norska innflytjendastofnunin UDI ekki slíkar umsóknir. Þar með séu skógarplöntuframleiðendur í Noregi í klípu. Í gróðurhúsum Skogplanter Østnorge bíða nú tólf milljónir plantna tilbúnar til afhendingar. Þessar plöntur eru ferskvara sem ekki er hægt að geyma til betri tíma. Ef ekki rætist úr segir Arne að farga þurfi plöntunum.

Í fyrra fékk gróðrarstöðin stuðning frá hinu opinbera vegna veirufaraldursins og þá var slakað á ferðatakmörkunum nógu snemma svo að gróðursetningarfólk komst til landsins í tæka tíð. Arne Smedstuen heldur í vonina að það sama gerist nú. Á þriðjudag  tilkynnti Iselin Nybø, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, að þeir sem hefðu mjög brýna þörf fyrir fólk frá útlöndum til að halda tiltekinni starfsemi gangandi gætu sótt um undanþágu frá ferðatakmörkunum. Þar var nefnt fólk á borð við stjórnendur fyrirtækja, vísindafólk, íþróttafólk og leikarar en ekkert var minnst á gróðursetningarfólk.

Synd að farga plöntum

Einnig er rætt við Torgrim Østgård, skógræktarráðgjafa hjá ríkisskógræktinni á Vestlandi, sem segir að vinnuaflsskorturinn sé áhyggjuefni. Nú sé hætta á að samkeppnisgróður nái sér svo mikið á strik að of seint verði að ráðast í gróðursetningu. Það sé mikil synd að taka þá áhættu að þurfa að farga trjáplöntum í stórum stíl. Ef ekkert verður af gróðursetningu hafi það líka langvarandi áhrif á norsku skógræktina því eyða komi í virðiskeðjuna og ræktunarhringrásina í viðkomandi skógum.

Brýn þörf á vinnandi höndum

Audun Laukeland og tveir vinnufélagar hans við störf í maí á síðasta ári. Ljósmynd af vef NRK: Helge Kårstad/KystskogbruketTom Kristian Kårstad sem stýrir skógarfyrirtækinu Fjordtømmer í Sunnfjord segist vinna að því hörðum höndum að finna fólk í gróðursetningu. Nú þegar hefur hann einungis getað tekið við um tíunda hluta þeirra trjáplantna sem hann hafi pantað. Afgangurinn standi enn í gróðrarstöðinni í Biri. „Hér erum við að hugsa um að bjarga jörðinni,“ segir hann, „því skógarnir binda mikinn koltvísýring“. Skógarvörðurinn á Vestlandi hefur lagst á sveifina með forsvarsmönnum skógræktenda sem nú biðla til fólks að hafa samband ef það hefur nokkra möguleika á að ráða sig til vinnu við gróðursetningu.

Skemmtileg og sveigjanleg vinna

Bræðurnir Amund og Steffen Laukeland hafa unnið við gróðursetningu mörg undanfarin sumur en þeir eru báðir í námi. Í samtali við NRK segja þeir að þetta sé mjög sveigjanleg vinna og geti gefið góðar tekjur. Vinnan sé skemmtileg og gott að vinna úti í náttúrunni. Auk þess sé gaman að geta lagt sitt af mörkum til að skógarnir vaxi. Þeir segjast gróðursetja 500-700 plöntur hvor á dag. Þetta sé líkamlega erfitt en fyrirhafnarinnar virði. Áður en þeir byrjuðu fóru þeir á námskeið en annars sé þetta upplögð vinna fyrir flesta sem eru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson