Lucile Delfosse, skógfræðingur og starfsmaður Skógræktarinnar, við gróðursetningu sitkagrenis í svok…
Lucile Delfosse, skógfræðingur og starfsmaður Skógræktarinnar, við gróðursetningu sitkagrenis í svokölluðum Kollabæjarfjallgarði í Fljótshlíð. Nær snjólaus Þríhyrningur í baksýn.

Aðstæður eins og gjarnan eru í maímánuði

Starfsfólk Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð hóf gróðursetningu sitkagrenis undir lok marsmánaðar. Aðstæður eru einstaklega góðar og segir Hrafn Óskars­son, ræktunarstjóri á Tumastöðum, að þær minni á það sem gjarnan er í maímánuði.

Segja má að nú sé auð og frostlaus jörð um allt land og því væri víða hægt að hefja gróðursetningu einum til tveimur mánuðum fyrr en venjan er. Hrafn segir einsdæmi að byrjað sé að gróðursetja í marsmánuði á Tumastöðum þótt þar vori gjarnan snemma. Mikið hafi rignt í haust og fram í nóvember en undanfarið hafi vætutíð ekki verið meiri en svo að nú séu aðstæður eins og algengt er í maímánuði og greiðfært um skógræktarsvæðin.

Í þessari snemmbúnu gróðursetningu er verið að gróðursetja sitkagreni, a.m.k. fimm þúsund plöntur. Bætt er í eyður í eldri gróðursetningum en einkum í stafafuruskógi sem grisjaður var fyrir tveimur árum. Fura þessi á að víkja með tím­anum enda illa vaxin. Hún stendur áverðurs vestan í brekkum í svokölluðum Kollabæjarfjallgarði um þrjá kílómetra frá Tumastöðum og hefur orðið fyrir veðurskemmdum og snjóbroti. Viðurinn nýtist því illa til annars en eldiviðarvinnslu nema þá einstöku bolir sem hæfir verða til annarrar vinnslu.

Stafafuran er í eðli sínu frumkvöðull og hefur jarðvegsbætandi áhrif sem kemur sér vel fyrir kröfuarðari tegund eins og sitkagrenið. Horfur eru því á að grenið taki fljótt við sér í skjóli furunnar og upp vaxi hraustur og gjöfull nytjaskógur. Þótt furan hverfi á endanum má því segja að hún hafi ekki vaxið til einskis. Á meðfylgjandi mynd sem Hrafn Óskars­son tók sést Lucile Delfosse við gróðursetningarstörf í Kollabæjarlandi og engu líkara en á dagatalinu ætti að standa maí en ekki mars.

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Hrafn Óskarsson