Gróðursetning hjá skógarbændum á Héraði er nýhafin og keppast menn nú við að koma plöntum í jörð.

Brynjólfur Guttormsson skógarbóndi að Ási í Fellum hóf gróðursetningu á jörð sinni 19. apríl síðastliðinn en hann hefur hafið gróðursetningu um mánaðarmótin mars-apríl á undanförnum árum.  Segir Brynjólfur að það komi nokkuð vel út að byrja snemma  að planta, þá sérstaklega í mela, því þegar fer að þorna til þá verða melarnir harðir og erfitt að koma plöntustafnum niður.  Brynjólfur hefur plantað 20.000 til 80.000 plöntum árlega á undanförnum árum.   Nú er farinn að sjást umtalsverður árangur af hans störfum þar sem neðraland Áslands er orðið skógi vaxið.