Ófært um skóginn á Stálpastöðum fyrir hálku

Þessa dagana er verið að grisja í skógum Skógræktar ríkisins í Hvammi í Skorradal. Aðallega er þetta stafafura en svolítið sitkagreni í bland, austan starfstöðvar Vesturlandsdeildar og ofan vegar.

Valdimar Reynisson skógarvörður segir að farið hafi verið í þessa grisjun vegna þess að gríðarleg hálka hafi verið í Skorradalnum að undanförnu. Vegna hálkunnar hefur verið ómögulegt að komast að þeim reitum sem verið er að grisja á Stálpastöðum án þess að stofna mannskapnum í stórhættu. Því hafi verið gripið til þess ráðs að grisja í Hvammi á meðan þar sem aðstæður séu betri núna. Töluvert magn af efni kemur úr þessari grisjun í Hvammi, segir Valdimar, og er reiknað með því að megnið af því fari til járnblendiverksmiðju Elkems á Grundartanga. 

Skógarvörðurinn brá undir sig betri fætinum og tók nokkrar myndir af grisjuninni sem segja meira en mörg orð. Á efstu myndinni er Orri Freyr Finnbogason skógarhöggsmaður að fella varg, sem kallað er. Vargar eru tré sem gjarnan eru grófgerðari en önnur, kvistóttari og ríkjandi í skóginum, oft lakari viðartré sem skyggja á önnur og hamla jafnvel vexti efnilegri viðartrjáa.


Spilararnir Benni og Gísli


Greni afkvistað á bekk


Tæki og tól

Myndir: Valdimar Reynisson