Verið er að grisja um allt land þessa dagana. Eins og við höfum sagt frá er grisjunarvélin enn við störf í Skorradal og verður þar fram yfir mánaðarmótin.

Á Austurlandi er líka verið að grisja. Skógráð hefur nýlokið við grisjun á Hafursá. Þar var grisjað í 2,65 ha lerkireit, gróðursettum árið 1969. Áætlað er að rúmlega 220 m3 af timbri fáist úr reitnum. Það timbur sem hæft er til flettingar og í almenna sölu er flokkað frá en afgangurinn er notaður í kurlkyndistöðina á Hallormsstað.

Að lokinni þessari grisjun hefst Sveinn Ingimarsson, verktaki, handa við grisjun í öðrum reit á Hafursá. Sá reitur er rúmlega 2 ha og er skógurinn þar miklu yngri. Trén eru öll felld með greinum og verður efnið notað í kyndistöðina.



Texti og mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins.