Reykjavíkurborg hefur undanfarið unnið að undirbúningi grill- eða nestishúss sem reisa á úr íslensku lerki, í tengslum við útivistarsvæði í trjálundi norðan við Gufunesbæinn. Grillhúsið er ein af mörgum framkvæmdum í svokölluðu „hverfapottaverkefni“ Reykjavíkurborgar. Markmið með hverfapottunum er m.a. að bæta útivistarsvæðin en hverfaráð kemur að forgangsröðun og vali á framkvæmdum.

„Grillskýlið á að falla sem best inn í trjálundinn og því talið best að byggja það úr íslensku byggingarefni og helst lerki,“ segir Fríða Björg Eðvarðsdóttir, landslagsarkitekt hjá VSÓ ráðgjöf sem útfærir húsið. „Inn í grillhúsinu verður grillaðstaða og nestisborð. Við útfærslu hugmyndar var horft til grillskýlis í Kjarnaskógi á Akureyri og í Guðmundarlundi Heiðmörk þar sem ýmsar góðar ábendingar fengust. Góð aðstaða býður upp á að útivistarsvæðin séu í notkun mesta hluta ársins. Hugmyndin með grillskýlinu er að þar geti starfsmannafélög, skóla- og útivistarhópar fengið aðstöðu til að grilla og borða nesti um leið og hægt er að nýta aðra aðstöðu til leikja og samveru.“

Í haust hafa starfsmenn Skógræktar ríkisins á Hallormsstað flett borð og valið stoðir í grillhúsið. Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir verkefni eins og grillhúsið dæmi um afar góða nýtingu á grisjunarvið. „Stærsti hlutinn af efninu eru heilir bolir. Þegar allt er talið fara um 13m³ af lerki í grillhúsið.”

Áætlað er að húsið verði tilbúið á næstu vikum. Í framtíðinni eiga borgarbúar því möguleika að leita skjóls fyrir veðri og vindum þökk sé í austfirskum lerkiskógum. Þangað til grillhúsið í Gufunesi verður tilbúið er upplagt að kíkja við í grillhúsum Skógræktar ríkisins í Haukadal eða Þjórsárdal.


Mynd: VSÓ ráðgjöf
Texti: VSÓ ráðgjöf og Esther Ösp Gunnarsdóttir