(Af Fréttum Stöðvar 2, 21. apríl; sjá má upptöku af fréttinni HÉR)

 

Halldór Sverrisson

 

Skæður lúsafaraldur herjar á grenitré og eru þau illa skemmd víða í Reykjavík. Tré sem standa næst strandlengjunni eru verr farin en þau sem eru innar í landi. Grenitré í borginni eru víða brún að sjá og er þetta áberandi meðfram Miklubraut. Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur Skógræktar ríkisins á Mógilsá, segir að meginskýringin sé grenilúsin, einnig þekkt sem sitkalús. Þótt fleira gæti hafa spilað inn, eins og frostvindar og selta, segir Halldór lúsinni fyrst og fremst um að kenna. Það er í raun ekkert við þessu að gera og það er of seint að úða. Það hefðu menn getað gert í haust, en þá ugðu menn ekki að sér. Versti óvinur lúsarinnar eru frosthörkur sem algengari eru innar til landsins. Þannig eru tré í Heiðmörk óskemmd. Á öðrum svæðum þar sem vetur var mildur megi tala um skæðan faraldur. Gamla Reykjavík sé illa farin, enda standi sá hluti á nesi, sem nær út í sjó, og frost verði þar sjaldan mikið. Helst þurfi 15 gráðu frost til þess að drepa lúsina.

Engin dæmi eru þekkt um að lúsin hafi drepið tré og segir Halldór að þótt sum tré verði ljót ættu menn að bíða með að fella þau og sjá til hvort þau jafni sig ekki.

Halldór segir af grenitré fái frið í nokkur ár fyrir lúsinni verði þau aftur græn eins og þau voru fyrir skemmdirnar.