Fyrir páska var eitt af mörgum námskeiðum í Grænni húsgagnagerð haldið á Hallormsstað. Námskeiðið er  á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands og í samvinnu við Skógrækt ríkisins. Námskeiðið fór fram í skemmu skógræktarinnar á Hallormsstað. Á námskeiðunum eru gerð einföld húsgögn úr fersku efni, beint úr skóginum og þurrkuðu skógarefni sem síðan er sett saman eftir gömlum aðferðum, þ.e. þurrt í blautt aðferðinni. Notaðar eru vankanta skógarfjalir og þversagaðar endasneiðar og settar á þær fætur úr þurru greinaefni. Hver þátttakendir fer með einn bekk, koll og tréhamar heim með sér að námskeiði loknu, auk hugmynda að margs konar útfærslum.

Í upphafi námskeiðsins vinna þátttakendur eina frumgerð að garðhúsgögnum eða leiktækjum úr fyrirfram ákveðnu efni sem útfæra má með ólíkum hætti. Oftar en ekki koma fram afar mismunandi hugmyndir að notkun grisjunarefnis úr görðum eða skógum á einstökum námskeiðum en gerð frummyndanna líkir eftir „alvöru“ smíði húsgagna úr greinum og bolum af ýmsum stærðum og úr mismunandi trjátegundum.

Þátttakendur læra notkun bitáhalda í ferskum viðarnytjum, kynnast tálgutækninni með notkun á tálguhníf, exi, barkarskröpu o.fl. áhöldum sem notuð eru í þessari gerð af smíði. Þá er farið í mismunandi þurrkaðferðir og yfirborðsmeðhöndlun húsgagnanna. Þessi vinna er tengd hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem efni er sótt í nærumhverfi og framleitt  þar. Ekki eru notaðar skrúfur eða annað aðkeypt efni svo segja má að húsgögnin geti farið beint til náttúrunnar aftur að notkun lokinni og því enginn urðunarkostnaður eða óþarfa akstur vegna smíðinnar.

Námskeiðin hafa verið afar vel sótt og komu þátttakendur víða að, s.s. frá Akureyri, úr Kelduhverfi, neðan af fjörðum og af Héraði. Það má einnig sjá á matsblöðum frá þátttakendum að þeir virðast njóta vinnunnar og verkefnanna á skapandi og gefandi hátt.

Á myndunum má m.a. sjá Sunnu Guðmundsdóttir, kennara á Akureyri, gera grein fyrir sinni frummynd. Þá má sjá hluta af heildar uppskerunni á námskeiðinu.

10042012_1

10042012_3

10042012_2

Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi