Frá Skógardeginum mikla 2014. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.
Frá Skógardeginum mikla 2014. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Árleg skógarhátíð í Hallormsstaðaskógi að hefjast

Hátíðarhöld Skógardagsins mikla í Hallormsstaðaskógi hefjast í kvöld kl. 19 með grillveislu Landssamtaka sauðfjárbænda og sauðfjárbænda á Austurlandi. Á sjálfan skógardaginn á morgun hefst dagskráin kl. 12 með skógarhlaupinu og formleg dagskrá í Mörkinni hefst með Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi kl. 13.

Skógardagurinn mikli er nú haldinn í ellefta sinn í Hallormsstaðaskógi. Veðurspáin er góð á Héraði og útlit fyrir bjart veður bæði föstudag og laugardag. Þetta er árleg skógarhátíð Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra, Héraðs- og Austurlandsskóga, Skógræktarfélags Austurlands og Skógræktar ríkisins. Eins og venjulega grilla sauðfjárbændur í skóginum föstudagskvöld en sjálfur skógardagurinn hefst kl. 12 á hádegi laugardags með skógarhlaupinu og skemmtiskokki.

Af öðrum viðburðum má nefna að skátar verða með skógarþrautir, skotið verður af boga og hestaleigan á Hallormsstað sér um að teyma undir börnum eftir kl. 15. Að sjálfsögðu verða grillaðar pylsur og boðið upp á ketilkaffi og lummur að hætti skógarmanna og fjölbreytileg tónlistaratriði á sviði meðan á dagskránni stendur. Dúettinn Jón og Erla syngja íslensk dægurlög, söngvarar og kórar af Héraði koma fram en einnig Jónas Sigurðsson og vinir.

Um kl. 17 verður Íslandsmeistarinn í skógarhöggi krýndur og allir fara heim saddir og glaðir.

Í Hallormsstaðaskógi er angan engu lík