Styrktu lagfæringar á Laugaveginum

Á liðnu sumri var efnt til samstarfs milli Þórsmörk Trail Volunteers (www.trailteam.is) og Íslenskra fjallaleiðsögumanna um lagfæringar á Laugaveginum svokallaða milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þórsmörk Trail Volunteers er verkefni sem starfar undir hatti Skógræktar ríkisins og er stjórnað af Charles Goemans. Verkefnið hefur síðustu sumur fengið sjálfboðaliða til starfa við stígaviðhald á Þórsmerkursvæðinu og hefur unnið mikið og gott starf við endurbætur og merkingar á gönguleiðum. Styrkur Íslenskra fjallaleiðsögumanna rann til lagfæringa á þeim hluta Laugavegarins sem liggur frá Þórsmörk í Emstrur. Fulltrúi Þórsmörk Trail Volunteers og Skógræktarinnar tók formlega við styrknum þegar Íslenskir fjallaleiðsögumenn fögnuðu 20 ára afmæli sínu fyrir fáeinum vikum..

Meðal þess sem gert var á leiðinni í sumar var að koma upp sérstökum vinnubúðum um tíu kílómetrum norðan við aðalbækistöðvarnar í Þórsmörk svo vinna mætti markvisst að úrbótum á þessari löngu gönguleið. Einkum var áherslan lögð á lagfæringar þar sem þykk jarðvegslög lágu undir skemmdum, að byggja upp jarðveg og koma gróðurþekju í eðlilegt horf. Til að hindra frekara vatnsrof var komið fyrir ræsum og land grætt upp umhverfis stíginn. Að þessu unnu hópar sjálfboðaliða í júlí- og ágústmánuði og bjuggu í tjöldum við vinnusvæðið á meðan.

Mikið verk er samt sem áður enn óunnið á Laugaveginum en byrjunin lofar góðu. Styrkurinn frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum gerði kleift að halda úti áðurnefndum vinnuhópum fjarri aðalbækistöðvunum en og þar með var hægt að komast yfir meiri viðgerðir en ella hefði verið unnt. Fyrir hönd Þórsmörk Trail Volunteers og Skógræktar ríkisins er hér með komið á framfæri innilegum þökkum til Íslenskra fjallaleiðsögumanna fyrir stuðninginn og samstarfið um leið og þeim er óskað til hamingju með 20 ára afmælið.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild:www.trailteam.is