Rætt við Jón Eldon Logason í Morgunblaðinu

„Mikill hiti getur borist frá kamínu og víða í Evrópu notar fólk kamínuna sem helstu leiðina til að kynda hjá sér húsin, en á íslenskum heimilum með hitaveitukyndingu og góða einangrun getur orðið allt of heitt þegar byrjar að loga í kamínunni, ef hún er af rangri stærð eða gerð.“ Þetta segir Jón Eldon Logason sem gefur góð ráð um arna og kamínur í spjalli við Morgunblaðið. Gott sé að láta fagmann gera úttekt þegar flutt er inn á heimili með arni eða kamínu. Formuðu kubbarnir séu handhægir en innihaldi vaxefni sem geta sest innan á strompinn.

Eldiviður er sjálfbær orkugjafi og eykur ekki losun gróðurhúsalofttegunda ef hann er tekinn úr sjálfbærri skógrækt og jafnmikill eða meiri skógur ræktaður og sá sem höggvinn var. Viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við Jón Eldon Logason er fróðlegt og vekur athygli á þeirri skemmtilegu og umhverfisvænu kyndingu sem arnar og kamínur eru.

Greinin í Morgunblaðinu er á þessa leið:

Hvað er notalegra en að hreiðra um sig fyrir framan arineld, í þægilegum hægindastól eða uppi í sófa, undir hlýju teppi, með góðan kaffibolla og konfektkassa inann seilingar? Marga dreymir um að eiga arin og vilja láta þessa fantasíu rætast, á meðan aðrir eru ögn hræddir við þessa fallegu viðbót við heimilið og óttast að neisti geti borist í eitthvað eldfimt eða að íbúðin fyllist af reyk því það gleymdist að opna hlerann.

Jón Eldon Logason er manna fróðaðstur um arna. Hann er múrarameistari og sérhæfði sig í arinsmíði í þrjá áratugi. Í dag er Jón Eldon hættur að smíða arna en fæst enn en við úttektir og ráðgjöf. Hann segir ákveðna eðlisfræði að baki því að arinn virki vel og þurfa t.d. lengd og innanmál skorsteinsins að vera rétt. „Miðað er við að skorsteinninn sé ekki minna en fjögurra metra langur, og nái vel upp fyrir þak hússins. Arininn þarf að framkalla rétt sog, og í stærstu örnunum sem þurfa að loga lengi verður oft að bæta við sérstöku röri sem dregur inn súrefni að utan og leiðir að eldinum.“

Upphitun eða skraut

Hönnun arinsins þarf að taka mið af aðstæðum á hverjum stað, og óskum heimilismeðlima. „Í nýjum húsum þarf ekki að auka við kyndinguna enda bæði hiti í ofnum og gólfum. Er eldurinn þá meira til skrauts en til upphitunar, og verður að tryggja að hitanum sé hleypt út. Í sumarbústöðum er arininn hins vegar oft notaður til upphitunar og þarf þá að gera hann úr efnum sem halda hitanum vel og lengi. Mikill hiti getur borist frá kamínu, og víða í Evrópu notar fólk kamínuna sem helstu leiðina til að kynda hjá sér húsin, en á íslenskum heimilum með hitaveitukyndingu og góða einangrun getur orðið allt of heitt þegar byrjar að loga í kamínunni, ef hún er af rangri stærð eða gerð.“

Tískan hefur líka áhrif á útlit og hönnun arnanna. „Undanfarin 20 ár eða svo hefur dregið úr því að hlaðin séu stór og mikil eldstæði og frekar að arnarnir eru felldir inn í útveggi, eins og nokkurs konar hólf. Í stað múrverks reiðir arinsmíðin sig æ meira á stálsmíði og steinplötur notaðar í stað múrsteina.“

Neistanetið ómissandi

Sýna þarf varkárni í kringum eld og segir Jón Eldon að taka þurfi öryggið fram yfir rómantíkina. Neistanet ætti að vera í öllum örnum og verða að vera óbrennanleg efni eins og steinn eða járn á gólfi í að lágmarki 60 cm frá arninum. Ef notað er gaseldstæði verður líka að koma fyrir gasskynjara sem lætur vita ef gasið tekur að leka. „Dregið hefur úr því að komið sé fyrir utanáliggjandi snúningshandfangi sem opnar og lokar hleraum á milli arins og stromps en sá búnaður átti það til að ryðga og festast, og eins að fólk gleymdi í hvaða stöðu handfangið átti að vera til að opna eða loka opinu. Í staðinn er kominn einfaldari búnaður og öruggari sem sem auðvelt að nota til að opna og loka.“

Brýnt er að setja hatt ofan á skorsteininn og segir Jón Eldon að skemmdir geti orðið ef rigning og snjór kemst niður um opið. Hatturinn kemur í veg fyrir að slái niður og til viðbótar við hattinn þarf að setja fuglanet á strompinn. „Ég var t.d. eitt sinn kallaður til á heimili þar sem gerðar höfðu verið nokkrar tilraunir með að kveikja upp í arninum en húsið fyllst af reyk. Þegar komið var upp á þak og hatturinn tekinn af strompinum kom í ljós að fuglanetið vantaði og hafði starahreiður runnið niður í pípuna þar sem það sat fast. Ekki nóg með það heldur reyndust fimm eða sex hreiður föst í strompinum þar fyrir neðan. Þetta var á þeim tíma árs þegar fuglarnir voru víðs fjarri og einfaldlega kveikt í hreiðrunum sem fuðruðu upp og aftur hægt að nota arininn,“ segir Jón Eldon og bætir við að það sé góð regla þegar flutt er inn í hús eða íbúð með arni að láta fagmann gera úttekt og ganga úr skugga um að óhætt sé að kveikja eld.

Töng, grind og teppi

Ef arinn er á heimilinu þarf ýmis tól og tæki. Jón Eldon mælir með aringrind undir eldiviðinn. „Grindin ætti að vera um 3 cm frá botninum og tryggir bæði að loftar vel undir og eins hlífir hún steininum við mesta hitanum svo hann springur síður.  Grindin getur líka gert eldinn fallegri svo það má njóta hans betur. Góð töng er líka ómissandi svo að færa megi eldiviðinn til og bæta á hann, og góð regla að hafa eldvarnarteppi innan seilingar ef eitthvað kemur upp á.

Jón Eldon segir formaða kubba ekki endilega besta eldiviðinn. Þó að þeir séu handhægir og brenni jafnt og fallega þá innihalda þeir yfirleitt vaxefni sem getur safnast upp innan á skorsteininum. „En ef uppsöfnuð vax-skán er orðin vandamál eru til sérstakir hreinsikubbar sem eyða sóti og óhreinindum sem hafa safnast upp.“

Sjálfum þykir Jóni Eldoni ágætt að nota íslenskan eldivið, t.d. birki og aspir sem skógræktarfélögin selja. „Síðan má nota gömul dagblöð til að kveikja upp í arninum, eða koma tveimur-þremur uppkveikikubbum fyrir undir eldiviðinum og kveikja þannig í.“

Eldstæðið kallar síðan ekki á mikið viðhald eða þrif, og segir Jón Eldon helst að fólk þurfi að fara varlega þegar askan er fjarlægð. „Til eru sérstakar ryksugur fyrir ösku sem skemmast ekki þó að enn leynist glóð í öskunni.“

En er arinn góð fjárfesting? Jón Eldon segir lítinn vafa á því að vel byggður arinn eykur verðgildi fasteignar og gleðji heimilismeðlimi. „Því fylgir alltaf rómantík að kveikja upp í arninum, og gerir tyllidaga enn hátíðlegri. Eldurinn er alltaf jafn heillandi og sameinast fjölskyldan fyrir framan arinin. Er gaman að sjá hvað börn á öllum aldri laðast að eldinum og taka hann fram yfir sjónvarp og snjallsíma. Ef köttur er á heimilinu kemur hann örugglega líka og malar á meðan hann nýtur varmans.“

Ástæða er til að benda líka á myndband sem Skógræktin gerði í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 2017 sem helgaður var skógum og orku.

Skógar og orka