Á tölvupóstlista fuglaáhugamanna birtist þessi frásögn í morgun (27. maí) eftir Daníel Bergmann: Nú í dag obbserveraði ég ásamt félaga EÓÞ hvar glókollur mataði fimm nýfleyga unga í skógræktarreit þeirra Mógilsara við rætur Esjunnar ástkæru.

Samkvæmt Snow & Perrins hefst varp glókolla í byrjun maí. Álega er 15-17 dagar og ungar verða fleygir á 17-22 dögum. Ef við gefum okkur að íslenskir glókollar séu súperkollar og höldum okkur því við neðri mörk, þá hófst þetta varp í lok apríl. Samkvæmt sömu heimildum eru eggin 9-11. Með þessum fimm fugla ungaskara var aðeins einn fullorðinn fugl, og hafði hann nóg að gera við að tína lýs í hersinguna. Það er því ekki aldeilis snarvitlaust að kasta fram þeirri kenningu að hinn fullorðni fuglinn hafi verið með annan eins skara á sínum snærum, enda heyrðum við þetta yndislega hátíðnitíst, sem er að verða einkennishljóð "þar sem tvö barrtré koma saman", víðar. Athugið að hér er þó aðeins kastað fram kenningu í fullkomnu ábyrgðarleysi, gersneyddri öllum harðkjarna vísindaaðferðafræðum og án sjónrænnar eða annarar vitsmunaskynjunar til staðfestingar.