Gjöfult skógræktarár að kveðja

Árið 2013 hefur verið gjöfult ár í íslenskri skógrækt. Aldrei áður hefur meira magn skógarafurða verið afhent úr skógunum okkar. Mest munar þar um trjábolina sem seldir eru Elkem-járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga í Hvalfirði. Samtals hafa verið afhentir þar um 2.750 rúmmetrar af föstu efni í formi trjábola.

Verksmiðja Elkem notar trjáviðinn sem kolefnisgjafa í málmvinnslu sinni. Kolefnið er tekið úr viðnum og því blandað við málma í mismiklu magni til að fá þá eiginleika í málminn sem óskað er eftir. Vaxandi framboð á íslenskum viði til þessara nota dregur úr þörfinni fyrir innflutning kolefnis, sparar þar með gjaldeyri en byggir líka undir starfsemi í skógum landsins, grisjun og viðarvinnslu. Segja má að trén hverfi ekki í þessari starfsemi heldur sé þeim umbreytt í verðmæt efni sem flutt eru úr landi, málmblöndurnar úr verksmiðju Elkem. Þar með getum við líka sagt með vissum hætti að við flytjum út skógarafurðir og sköpum gjaldeyri úr trjánum sem vaxa í skógum landsins.

Annað ánægjulegt er að smám saman eykst hlutur íslenskra trjáa á jólatrjáamarkaðnum. Sem dæmi má nefna að Sólskógar á Akureyri selja talsvert fleiri íslensk tré en innflutt. Hlutfall íslenskra trjáa hjá Sólskógum er um 60 prósent. Bjartsýni ríkir líka um að við getum áður en langt um líður orðið sjálfum okkur nóg um jólatré. Það fer reyndar dálítið eftir því hvort landinn sættir sig við aðrar tegundir en hinn sívinsæla nordmannsþin sem ekki er hægt að rækta að neinu marki hérlendis.

Else Möller, skógfræðingur og skógarbóndi í Vopnafirði, telur eftir tuttugu ár geti Íslendingar framleitt öll jólatré sem markaðurinn þarf. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nú gefið út rit hennar, Jólatrjáaræktun á Íslandi, og er það aðgengilegt á vef skólans. Ritið er samantekt úr ritgerðum Else, Hraðrækt jólatrjáa á ökrum, sem hún vann í BS- og MS-námi við skólann.

Í inngangi að ritinu kemur fram að ræktun jólatrjáa á Íslandi hafi verið stunduð um 70 ára skeið á. „Ræktunin hefur að mestu farið fram á skógræktarsvæðum og í birkiskógum eða birkikjarri. Framleiðsla jólatrjáa á ökrum hefur lítið verið stunduð hérlendis og því lítil staðbundin þekking til á þessu sviði. Erlendis er jólatrjáarækt á frjósömum ökrum algeng og slík jólatrjáaræktun er stunduð sem sjálfstæð búgrein með markvissa og umfangsmikla framleiðslu,“ segir í inngangi ritsins.

Ritið Jólatrjáaræktun á Íslandi er aðgengilegt á slóðinni http://www.lbhi.is/sites/default/files/gogn/vidhengi/else_moller_.pdf

Meðfylgjandi mynd er af jólatré Dalvíkurbyggðar sem stendur í miðbæ Dalvíkur. Tréð er 10 metra hátt greni frá Hallormsstað. Myndina tók Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar.